Heildarútlán Íbúðalánasjóðs drógust saman um 38 prósent í október, samanborið við mánuðinn á undan. Lánin námu samtals 1,8 milljörðum í október, þar af voru um 1,5 milljarðar vegna almennra lána og tæpar 300 milljónir vegna annarra lána. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Meðalútlán almennra lána voru 9,3 milljónir króna í október sem er um 7% lægra en í fyrra mánuði. Heildarútlán sjóðsins nema því rúmum 26 milljörðum króna á árinu til þessa. Það er um 51 prósent minni útlán en á sama tímabili í fyrra.

Heildarvelta með íbúðabréf er þó enn nokkur. Í október var hún tæplega 97 milljarðar króna en það er um 17% meiri velta en í fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur rúmum 809 milljörðum það sem af er á árinu 2009.

Sjóðurinn áætlar að gefa út íbúðabréf að nafnverði 19-21 milljarð króna á árinu, sem er lækkun um 10 milljarða frá fyrri tölum. Samkvæmt áætlun er sjóðsins er áætlað að ný útlán á árinu verði 31-33 milljarðar króna á yfirstandandi ári, sem er lækkun um 6 milljarða frá fyrri áætlun.