Rekstrartekjur Hitaveitu Suðurnesja hf. á árinu 2005 námu 4.682 milljónum. kr., en þær voru 3.809 milljónir kr. árið áður. Um 23% hækkun tekna stafar af aukningu í raforkusölu um 545 milljónir kr. og aukningu í öðrum tekjum um 261 milljónir kr. Hagnaður félagsins á árinu 2005 nam 1.576 milljónum kr., en árið áður var hagnaður félagsins 880 milljónir kr.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 2.440 milljónum kr., en voru 2.359 milljónir kr. árið áður. Hækkun rekstrargjalda um 81 milljónum kr. er aðallega vegna aukningar á kostnaði við raforkukaup og raforkuflutning um 215 milljónir kr.

Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir HS hf. bókfærðar á 24.633 milljónum kr., þar af eru veltufjármunir 1.933 milljónir kr. Eignir hækkuðu um 6.647 milljónum kr. frá fyrra ári. Aukningin er aðallega vegna fjárfestinga félagsins í Reykjanesvirkjun, sem námu 6.115 milljónir kr. á árinu.

Skuldir HS hf. nema samkvæmt efnahagsreikningi 10.862 milljónum kr., þar af eru skammtímaskuldir 2.740 milljónum kr. Skuldir hafa hækkað um 5.402 milljónum kr. milli ára. Hækkunin skýrist af lántökum félagsins vegna Reykjanesvirkjunar.

Eigið fé HS hf. var lækkað um 329 millj. kr. í ársbyrjun vegna leiðréttingar á lífeyrisskuldbindingu sem hvílir á félaginu. Samanburðarfjárhæðir ársins 2004 hafa verið leiðréttar vegna þessa og er hagnaður ársins 2004 því 99 millj. kr. lægri en samkvæmt ársreikningi 2004. Þá koma 230 millj. kr. til lækkunar á hagnaði áranna 2001-2003. Leiðréttingin hefur þau áhrif að eiginfjárhlutfall í árslok 2004 var 70% í stað 71% fyrir leiðréttingu. Eiginfjárhlutfall í lok árs 2005 var 56%.

Horfur eru góðar um rekstur Hitaveitu Suðurnesja hf í heild fyrir árið 2006, umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar. Áfram verður mikil uppbygging kerfa samfara aukningu byggðar á þjónustusvæði fyrirtækisins og aukinni orkuvinnslu. Unnið verður að rannsóknum á frekari virkjunarkostum til framtíðar og er verið að afla rannsóknarleyfa í því skyni. Stærstu einstöku verkefnin eru lok framkvæmda við Reykjanesvirkjun og síðan framkvæmir við orkuver 6 í Svartsengi sem er 30 MW og verður gangsett fyrir árslok 2007. Með þessum orkuverum eykst raforkuframleiðsla fyrirtækisins úr 45 MW í 175 MW.