Nýliðið rekstrarár hjá Auði Capital einkenndist af uppbyggingu og fjárfestingu í innviðum og mannauði segir í tilkynningu félagsins sem send var út vegna aðalfundar. Tap félagsins nam 88 milljónum króna á árinu. Umsvif fyrirtækisins jukust til muna en á árinu hóf Auður vörslu séreignarsparnaðar og starfsemi fyrirtækjaráðgjafar var efld til muna. Starfsmannafjöldi tvöfaldaðist á árinu 2009, starfsmenn voru 16 í byrjun árs en 32 við árslok.

Í tilkynningu segir að fjárhagsstaða félagsins sé mjög traust, fyrirtækið er skuldlaust og eigið fé nemur rúmum 1,1 milljarði króna.

„Við ákváðum að fjárfesta í framtíðinni því við vitum að öll él styttir upp um síðir“, segir Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital í tilkynningu.  „Við erum sannfærð um að fjármálafyrirtæki byggt á heilbrigðri hugmyndafræði eigi mikil tækifæri á markaði þar sem traust og trúverðugleiki skiptir sköpum.  Mikil fjölgun viðskiptavina í séreignarsparnaði og eignastýringu undirstrikar að eftirspurn eftir okkar nálgun er mikil.  Verkefnastaða fyrirtækjaráðgjafar er mjög góð og þó að fjárfestingar hafi gengið hægar en við hefðum óskað þá bindum við vonir við að það sé að losna um fjárfestingarkosti í kjölfar endurskipulagningar bankanna.“

Ársreikningur Auðar Capital fyrir árið 2009 var samþykktur á aðalfundi félagsins 22. mars.

Á aðalfundinum var stjórn félagsins kjörin.  Stjórnina skipa: Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Kristín Edwald og David Adams.