Tryggingastofnun Ríkisins segir villandi að segja mánaðarlegar greiðslur til lífeyrisþegar séu rangar eða útreikningarnir séu rangir heldur komi mismunur í greiðslum við tekjuáætlun fram við uppgjör í lok árs sem líkja megi við árlegt uppgjör hjá Skattinum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stofnuninni sem send var út vegna fjölmiðlaumfjöllunar um nýbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga, en þar hefur komið fram að um 90% lífeyrisþega hafi fengið aðrar greiðslur en ættu að fá.

Jafnframt segir í yfirlýsingunni sem Sigrún Jónsdóttir, sem titluð er sem framkvæmdastýra á skrifstofu forstjóra TR, og staðgengill forstjóra, sendi frá sér að það sé miður að umræða um greiðslur stofnunarinnar hafi þróast með þeim hætti sem af hafi orðið, en vonir séu bundnar við að skýrslan leiði til úrbóta og einföldunar á flóknu kerfi.

Engar frekari skýringar eru þó gefnar á afhverju hlutfall endurútreiknings sé jafnhátt og gagnrýnt er í skýrslu Ríkisendurskoðunar, heldur vísað í lagaheimildir um uppgjörið þegar allar árstekjur liðins árs liggi fyrir.

Finna að lágmarksfjárhæð og háu endurskoðunarhlutfalli

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins upp úr skýrslunni kemur fram að Ríkisendurskoðun finni að því að of fáir viðskiptavinir hennar fái réttar greiðslur. Þannig hafi á tímabilinu 2016 til 2019 87 til 90,6% allra lífeyrisþega fengið rangar greiðslur, þá ýmist of eða vangreiddar vegna mismunarins á tekjuáætlunum og rauntekjum.

Formaður Landsambands eldri borgara, Þórunn Sveinbjörnsdóttir segir endurreikningana grafalvarlegt mál sem bjóði heim hættu á mistökum og gagnrýnir hún lög um lífeyrismál sem sett hafi verið árið 2017 til einföldunar því þau hafi þvert á móti verið til vandræða að því er fram kemur á vef LEB .

Í skýrslunni segir að nauðsynlegt sé að minnka umfang endurreiknings bóta sem og endurskoða lágmarksfjárhæð sem ekki skuli innheimta ef til ofgreiðslu kemur, en hún er í dag einungis 1.000 krónur.

Jafnframt kemur þar fram að stofnunin þurfi að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni og efla upplýsingagjöf, auk annarra mála sem snúa að umsjón, rannsóknarskyldu og gagnaöflun við afgreiðslu mála.

Þannig séu dæmi um viðskiptavini stofnunarinnar sem hafi orðið af réttindum vegna þessara mála, en meðal annarra dæma um brotalamir eru nefnd hversu margir úrskurðir falli gegn verklagi stofnunarinnar og að mistök og óskýr lagaákvæði muni kosta ríkissjóð í það minnsta 9 milljarða króna í óvænt úgjöld.

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um nýbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga vill TR koma því á framfæri að viðskiptavinir fá rétt greitt í mánaðarlegum greiðslum sínum á grundvelli fyrirliggjandi tekjuáætlunar hvers og eins lífeyrisþega. Það er afar villandi að halda því á lofti að mánaðarlegar greiðslur TR séu rangar eða að útreikningar séu rangir.

Við árlegt uppgjör fyrir liðið almanaksár kemur í ljós mismunur til hækkunar eða lækkunar vegna breyttra tekna á liðnu ári. Samkvæmt lagaheimildum er mismunurinn gerður upp (greiddur út eða innheimtur) þegar allar árstekjur liðins árs liggja fyrir. Uppgjörið á sér yfirleitt stað í maí - júní og þá þurfa viðskiptavinir annaðhvort að greiða til baka eða fá greidda inneign. Þessu má líkja við árlegt uppgjör hjá Skattinum.

Það er mjög miður að umræða um greiðslur Tryggingastofnunar hafi þróast með þessum hætti.

Markmið okkar sem störfum hjá TR er nú sem fyrr að þjónusta viðskiptavini okkar eftir bestu getu með hag þeirra og velferð að leiðarljósi.

Uppbyggileg umræða um lífeyriskerfið er mikilvæg, því ítrekum við að Tryggingastofnun fagnar úttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni og stöðu almannatrygginga. Vonir eru bundnar við að hún leiði til úrbóta og einföldunar á flóknu kerfi, lífeyrisþegum til hagsbóta.“