Héraðsdómur norðurlands eystra hefur sýknað fyrirtækið Trans-Atlantic ehf. af kröfum fyrirtækisins Atlantik ehf. um að því fyrrnefnda yrði bannað að notað heitið Trans-Atlantic sem firmanafn eða annað auðkenni fyrir ferðaþjónustu sína, sem lénnafn á vefnum o.s.frv. Einnig var Atlantik dæmt til að greiða Trans-Atlantic 450 þúsund krónur í málskostnað.

Atlantik hefur frá áramótum 1977-1978 rekið ferðaþjónustu og fékk úthlutað samsvarandi lénum árið 1988 og 2002, auk þess sem vörumerkin Atlantik og Atlantik-Tours skráð sem vörumerki. Félagið Trans-Atlantic var hins vegar stofnað haustið 2004 og hefur að markmiði að markaðssetja og selja ferðaþjónustu, ekki síst að stuðla að auknu framboði á ferðum fyrir Íslendinga beint frá landsbyggðinni til útlanda. Haustið 2004 var TA úthlutað lénsheitunum www.atlanticferdir.is og transatlantic.is. Í febrúar 2005 fór Atlantik fram á að Trans-Atlantic léti af notkun á heitinu Atlantic í firmanafni sínu með þeim rökum að augljós ruglingshætta væri með því nafni og firmaheiti og vörumerki hins fyrrnefnda.

Almenn skírskotun í úthafið

Hafnaði síðarnefnda fyrirtækið þeirri málaleitan með vísan til þess að hún hefði ekki stoð í lögum.  Vegna þessarar afstöðu bar Atlantik fram formlega kvörtun til Neytendastofu síðsumars 2005 og krafðist, að Trans-Atlantic yrði með úrskurði gert óheimilt að nýta firmaheiti sitt, þar með talið í lénsheitum.  Niðurstaða Neytendastofu var sú að ekki hefði verið brotið gegn ákvæðum laga og ekki væri tilefni til afskipta af hennar hálfu. samkvæmt ofangreindu er að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum 12. gr. laga nr. 57, 2005. Atlantik taldi þau málalok óásættanleg og höfðaði því dómsmál.

Héraðsdómur fellst á þau rök Trans-Atlantic að orðin atlantic og atlantik teljist vera almenn og að því leyti alþekkt þar eð þau tengjast heiti heimsúthafs, og telur firmanafn TA sé það frábrugðið vörumerki Atlantik að ekki sé sýnt að hætta sé á að viðskiptavinir ruglist á þeim. Telst notkun stefnda á firmanafninu Trans-Atlantic ásamt sambærilegu lénsheiti því ekki fela í sér brot á vörumerkjarétti stefnanda.