„Enn á ný, skýtur The Economist Intelligence Unit (EIU) framhjá markinu með því að raða Íslandi í næstefsta sæti, að eins Noregur skorar hærra, lýðræðisskala síns sem telur 167 ríki,“ ritar hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason í grein sem birtist á vefmiðlinum Social Europe . Þótt skor landsins taki dýfu milli áranna 2019 og 2020 telur Þorvaldur að það sé enn alltof hátt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Þorvaldur fjallar um land og þjóð með þessum hætti.

Að mati prófessorsins eru tvær ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi gefi EIU Íslandi toppeinkunn hvað varðar framkvæmd kosninga og fjölræði. Þetta telur Þorvaldur ekki ganga upp enda hafi atkvæðavægi milli landshluta verið ójafnt frá upphafi og verið eitt helsta þrætuefni stjórnmálanna alla tíð.

„Þessi slagsíða hefur leitt til þess að erlendir eftirlitsaðilar, á borð við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, hafa endurtekið lýst því yfir að misræmið í atkvæðavæginu sé slíkt að þar sé á ferð brot á mannréttindum,“ ritar Þorvaldur.

Könnun Viðskiptablaðsins á eftirlitsskýrslum ÖSE leiddi í ljós að misræmið er nefnt til sögunnar og bent á að „[á]framhaldandi endurskoðun á löggjöf um dreifingu þingsæta á milli kjördæma ætti að taka til skoðunar að tryggja samræmi við meginregluna um jafnan kosningarétt.“

Smámenni fangelsuð í hrunmálunum

Hin mistökin að mati Þorvaldar eru þau að EIU gefi Íslandi fullt hús hvað varðar stjórnmálamenningu. Þar væri algerlega litið framhjá því að árið 2010 hefði Alþingi, þá til „skamms tíma auðmjúkt eftir efnahagshrunið 2008, sem rekja mátti til aðgerða glannalegra banka- og stjórnmálamanna“, samþykkt samhljóða þingsályktun um viðbrögð þingsins við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar var meðal annars ályktað að „taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

„Þrjátíu bankamenn og sex aðrir, að stærstum hluta smámenni (e. small fry), voru dæmdir til samanlagt 88 ára fangelsisvistar fyrir glæpi tengda hruninu. Enn er kjarni íslenskrar stjórnmálamenningar þó að stærstum hluta óbreyttur,“ ritar Þorvaldur.

Að mati Þorvaldar þá hafa samtökin Freedom House og Transparency International hins vegar „náð Íslandi rétt“ þegar þau hafa lækkað skor landsins skarpt á liðnum árum. Rétt er að geta þess að téður Þorvaldur var meðal álitsgjafa Transparency International á Íslandi og skar stigagjöf, sem átti rætur að rekja til hans, sig nokkuð frá öðrum niðurstöðum og hafði áhrif til lækkunar .

Nýja stjórnarskráin lausnin

Í grein sinni rekur prófessorinn nokkur af þeim málum sem hafa verið í hámæli síðustu ár, á borð við Panamaskjölin, starfsemi Samherja í Namibíu og veru Íslands á gráa lista FATF. Þá bendir hann á að hæstaréttardómarar hafi á undanförnum árum staðið í „lítilfjörlegum dómsmálum“ gegn hvor öðrum og að landlæg spilling hafi verið afhjúpuð í metsölubókinni (e. best-seller) Spegill fyrir Skugga-Baldur eftir fyrrverandi þingmanninn Ólínu Þorvarðardóttur. Sem betur fer sé hins vegar til lausn.

„Þrátt fyrir allt þetta virðist framtíð Íslands björt, að því gefnu að Alþingi safni kjarki, bjóði oligörkum birginn og virði vilja þjóðarinnar með því að lögfesta nýju stjórnarskrána. Sú var samin til að snúa við hnignun aldagamallar lýðræðismenningar landsins. Ef ekki, þá á Ísland á hættu á að verða þrotríki (e. failed state), stimpill sem glöggir áhorfendur hafa gefið Bretlandi og (undir stjórn Donald Trump) Bandaríkjunum. Góður og gegn áhorfandi myndi aftur á móti aldrei gefa Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð þann stimpil,“ ritar Þorvaldur.