Eftir hrun hafa bankarnir í grófum dráttum fjármagnað sig með innlánum, víkjandi lánum frá íslenska ríkinu og sértryggðum skuldabréfum. Sértryggð skuldabréf eru í grunninn þannig að banki þarf að leggja veð á móti og því er sá er lánar í raun ekki að taka mikla áhættu því bankinn er að veðsetja samsvarandi hluta af efnahagsreikningi sínum og oft jafnvel örlítið hærra hlutfall.

Vegna þessa eru það töluvert mikil tíðindi að Arion banki hafi nú gefið út skuldabréf upp á 300 milljónir evra, eða sem nemur 45 milljörðum króna. Í tilkynningu frá bankanum segir að þetta sé fyrsta útgáfa íslensks banka í evrum sem seld er til breiðs hóps fjárfesta eftir hrun. Skuldabréfið var gefið út undir EMTN-rammasamningi (e. Euro Medium Term Note) um alþjóðlegar skuldabréfaútgáfur.

Í byrjun árs 2013 gaf Arion banki reyndar út skuldabréf upp á 500 milljónir norskra króna eða 11,2 milljarða. Það bréf bar 5,0% fljótandi vexti ofan á NIBOR-vexti og var til þriggja ára og var fyrsta erlenda fjármögnun íslensks banka á erlendri grund síðan árið 2007. Í byrjun þessa árs tilkynnti bankinn að hann hefði keypt til baka hluta af þessum skuldabréfum. Skuldabréfin sem bankinn keypti tilbaka voru að fjárhæð 59 milljónir norskra króna voru keypt á verðinu 102,5 sem samsvarar 2,79% álagi yfir NIBOR.

Skuldabréfið, sem gefið var út núna, var með 3,10% álagi yfir millibankavöxtum og er því mun hagstæðara en bréfið sem gefið var út í norskum krónum.

Fínir fjárfestar

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir væntingar um að það verði lifandi markaður með þessi bréf.

„Ég held að við getum alveg sagt að traust á íslenska bankakerfinu sé að aukast," segir Höskuldur . „Fyrsta útgáfan okkar árið 2013 var á allt öðrum kjörum og þá vorum við í raun bara að athuga hvort við hefðum yfir höfuð einhvern aðgang að fjármagni. Síðan hefur tíminn liðið og nú erum við komin með lánshæfismat sem hefur þróast úr stöðugu yfir í jákvætt. Ríkið hefur líka verið í útgáfu sem heppnaðist ágætlega. Þróunin hér, bæði í fjármálakerfinu, hjá bönkunum og svo í efnahagslífinu lítur betur út. Það styður við þetta hjá okkur.

Arion banki þarf í raun ekki nauðsynlega að fara í svona fjármögnun. Þetta skapar okkur samt ágætt tækifæri til að greiða upp óhagstæðari lán og svo höfum við betri aðgang að gjaldeyri til að lána okkar viðskiptavinum."

Um umframeftirspurnina segir Höskuldur að það hafi verið raunveruleg tilboð. „Mér sýnist í aðalatriðum að þetta hafi verið fínir fjárfestar. Stór hluti þeirra er í Bretlandi og Skandinavíu en líka víðsvegar um heiminn. Þetta var í fullu samræmi við okkar væntingar."

Spurður hvort bankinn hyggi á frekar skuldabréfaútgáfu í evrum svarar Höskuldur: „Við erum með mjög stóran ramma og auðvitað erum við með ákveðið prógramm sem við höldum áfram með en kannski alveg á næstu mánuðum. 45 milljarðar er þónokkuð ef maður horfir á stærðina á bankanum. Þetta eru peningar sem við getum sett góðra nota og gott skref í þessu sem við erum að gera."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .