Í könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum sem var gerð í febrúar s.l. voru flestir, eða 50,2% þeirra sem tóku afstöðu, sem sögðust bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Athygli vekur að 28,5% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Lilju Mósesdóttur, en þetta er í fyrsta sinn sem traustfylgi við Lilju er mælt. Það er umtalsvert hærra hlutfall en sagðist bera mikið traust til annarra stjórnmálaforingja sem mældust allir njóta trausts hjá minna en 20% aðspurðra.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, hefur traustfylgið við Ólaf Ragnar aukist stöðugt frá árinu 2009 þegar það mældist 22,9%. Þá hefur traust almennings til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, sem og til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns VG minnkað töluvert frá því að mælingar hófust í lok árs 2008. Þegar best var mældist Jóhanna með 63,6% traustfylgi en það hefur nú minnkað niður í 17,4%, sem þó er aðeins hærra en í síðustu mælingu, sem gerð var í mars á síðasta ári.

Traust til forsetans og formanna stjórnmálaflokkanna, skv. traustkönnunum MMR.
Traust til forsetans og formanna stjórnmálaflokkanna, skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Traust til Steingríms J. mældist 38% þegar best var (feb.09) en hefur nú aldrei verið lægra.

Þó vekur athygli að traust til Jóhönnu og Steingríms mælist hærra en til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Traust til Bjarna lækkar um rúm 3 prósentustig frá síðustu mælingu en traust til Sigmundar Davíðs eykst um tæp 2 prósentustig.

Sækir traustfylgið til stjórnarandstöðunnar

Ef aðeins er horft til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þá vekur athygli hversu mikið traustfylgi hans hefur aukist frá því í september 2009 þegar það mældist sem fyrr segir aðeins 22,9%. Fylgið við forsetann hefur aldrei mælst hærra en nú, en að sama skapi hefur þeim fjölgað lítillega sem segjast bera lítið traust til forsetans, eða um rúm 3 prósentustig frá síðustu mælingu. Um 28,5% aðspurðra segjast í dag bera lítið traust til forsetans.

Traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)

Eins og sjá má á myndinni hér neðan sækir Ólafur Ragnar helst fylgi sitt til stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Tæplega 66% þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn bera mikið traust til Ólafs Ragnars og hafa aldrei verið fleiri. Þá segjast tæplega 63% þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn bera mikið traust til Ólafs Ragnars, en þeim hefur fækkað nokkuð frá síðustu mælingu.

Þá vekur athygli að enn fækkar þeim sem styðja ríkisstjórnarflokkana og bera mikið traust til Ólafs Ragnars. Um 22-23% þeirra sem styðja annan hvorn ríkisstjórnarflokkinn, Samfylkingu eða VG, segjast bera mikið traust til forsetans og hafa aldrei verið færri.

Traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
Traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka skv. traustkönnunum MMR.
© vb.is (vb.is)