Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nýtur nú mun minni traust meðal þeirra sem styðja ríkisstjórnarflokkana tvo, Samfylkinguna og Vinstri græna.

Í könnur MMR sem birt var í vikunni, þar sem spurt var um traust almennings til forystufólks í stjórnmálum, nýtur Ólafur Ragnar trausts á meðal 26,7% þjóðarinnar. Hins vegar sögðust tæplega 47% treysta honum frekar lítið eða mjög lítið.

Í könnuninni nú segjast þó aðeins fleiri treysta Ólafi Ragnari heldur en í september sl. þegar MMR spurði sömu spurningar. Þá sögðust tæplega 23% treysta honum á meðan tæp 48% gerðu það ekki.

Á mynd nr. 2 hér að ofan má sjá þróunina á trausti almennings frá því í desember 2008.

Sé hins vegar farið enn lengra, til desember 2008, hefur þeim sem segjast bera traust til Ólafs Ragnars lækkar verulega en þá sögðust tæp 44% aðspurðra treysta honum frekar eða mjög mikið. Á sama tíma sögðust tæp 29% treysta honum lítið.

Athyglisvert er þó að skoða traust almennings til Ólafs Ragnars flokkað niður eftir stuðningi við stjórnmálalfokka.  Frá því í desember 2008 hefur þeim sem segjast bera mikið traust til forsetans úr röðum núverandi ríkisstjórnarflokka fækkað verulega eins og sést á myndinni hér að ofan (mynd 1).

Í desember 2008 naut Ólafur Ragnars trausts á bilinu 50-60% meðal þeirra sem sögðust styðja Samfylkinguna og Vinstri græna. Í dag segjast aðeins 24-28% stuðningsmanna þessara flokka bera traust til forsetans.

Þá vekur athygli að Ólafur Ragnar nýtur í dag mest trausts hjá þeim sem segjast styðja Framsóknarflokksins, eða um 55%. Fyrir rúmu ári síðan sögðust 37% þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn bera traust til forsetans, það hlutfall lækkaði síðan nokkuð í september sl. en hefur nú rokið upp.

Þá vekur einnig athygli að í lok desember 2008 naut Ólafur Ragnars traust tæplega 28% þeirra sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn. Það fylgi lækkaði allverulega á síðasta ári eins og sést á myndinni hér að neðan en hefur þó hækkað í dag þegar um 22% þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn segjast á sama tíma bera traust til Ólafs Ragnars.

Þrátt fyrir fjölgun sjálfstæðismanna sem segjast bera traust til forsetans, og mikla fækkun þeirra sem segjast styðja ríkisstjórnarflokkana, nýtur forsetinn enn minnst traust meðal þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn.