Fyrirtækið Eignamiðlun ehf. hefur starfað frá árinu 1957, en það var stofnað af hæstaréttarlögmönnunum Sigurði Ólasyni og Þorvaldi Lúðvíkssyni. Sverrir Kristinsson átti þó eftir að kaupa fyrirtækið árið 1970. Sverrir gegnir enn fullu starfi og er auk þess stjórnarformaður Eignamiðlunar ehf.

Breyttir tímar

Sverrir segir margt hafa breyst á þessari rúmlega hálfu öld. „Fyrirtækið var í algjörri lægð þegar ég tók það yfir á sínum tíma. Fasteignaviðskipti voru þá ekki fyrirferðarmikil. Það þótti gott að sjá eina síðu í Morgunblaðinu með auglýstum fasteignum til sölu.“ Að hans sögn eru þessir tímar engan veginn samanburðarhæfir. „Veltan var engin í samanburði við daginn í dag og það voru fáar sölur. Aukningin og umfangið er allt annað. Ætli þetta sé ekki búið að þúsundfaldast.“

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Sverrir seldi sína fyrstu fasteign. Fyrirtækið flokkast í dag sem elsta fasteignasala landsins og nú starfa 18 manns hjá fyrirtækinu. Alls eru fjórir eigendur að Eignamiðlun og auk Sverris eru það þeir Guðmundur Sigurjónsson, Kjartan Hallgeirsson, framkvæmdastjóri Eignamiðlunar, og Guðlaugur Ingi Guðlaugsson. „Þegar ég tók við fyrirtækinu starfaði einn annar sölumaður með mér og svo ritari. Í dag eru hér 18 manns, en auk sölu á fasteignum erum við einnig mikið í ráðgjöf og verðmati þannig að við þurfum á þessum mannskap að halda.“

Traustið mikilvægast

Sverrir segir Eignamiðlun ganga út á það að skapa viðskiptasambönd og að vinna sér inn traust. „Í dag er stór hópur viðskiptavina kominn í aðra, þriðju og jafnvel fjórðu kynslóð. Við leggjum því mikið upp úr trausti og vönduðum vinnubrögðum.“ Sverrir segir þetta traust ekki aðeins vera mikilvægt meðal einstaklinga, heldur segir hann það gefa fyrirtækinu meðbyr þegar kemur að samskiptum við annars konar viðskiptavini. „Við höfum til að mynda verið að vinna talsvert fyrir byggingaraðila og fjármálastofnanir sem leita gjarnan til okkar. Þar skiptir þetta traust einnig miklu máli.“

Eignamiðlun hefur siglt í gegnum hin ýmsu tímabil í íslenskri efnahagssögu. Fjármálahrunið sem skall á árið 2008 er þó án efa hingað til það versta, en það hafði mikil áhrif á fasteignamarkaðinn. „Við sáum að hér fyrir hrun var lánað og lánað og verð fór upp úr öllu valdi. Veltan var gífurleg og fólk var að taka lán í erlendri mynt.“

Sverrir segist sjálfur vera talsmaður þess að tekjutengja lán, með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir óþarfa gengisáhættu. Hann segir umhverfið í dag einnig miklu heilbrigðara. „Ég sé engin bólumerki í þeim skilningi í dag. Fyrir hrun var bara verið að lána of mikið. Síðan fór sólin að rísa og nú gera fjármálafyrirtæki kröfur um greiðslumat auk þess sem þau lána minna.“

Telur markaðinn í jafnvægi

Samkvæmt Sverri einkennist markaðurinn nú af meiri festu. „Þetta var sívaxandi fram til mars á síðasta ári, svo kom smá lækkun og nú finnst mér meiri festa vera komin á markaðinn.“ Aðspurður segist hann vona til þess að þetta jafnvægi haldist til lengri tíma.

Fólk þarf þak yfir höfuðið og því telur Sverrir að stjórnvöld eigi að huga að því hvernig einstaklingar geti sem best eignast eigin húsnæði. „Því fylgir öryggi að eiga eigið húsnæði og svo er það nú ekki svo dýrt í samanburði við leigumarkaðinn. Eiginfjármyndun gerist ekki ef allt brennur upp í leigugjöldum.“

Eignamiðlun leggur almennt áherslu á höfuðborgarsvæðið og sveitarfélögin í kringum Reykjavík. Fyrirtækið hefur einnig verið að selja nýjar eignir í samvinnu við byggingaraðila. Sverrir segir mikið um atvinnuhúsnæði og byggingalóðir. Annað slagið koma áhugaverðar jarðir inn á borð til þeirra. Þá hefur fyrirtækið einnig tekið að sér sölu á fasteignum út á landi.

„Við viljum bara vanda okkur í öllu og gera allt sem best. Þar af leiðandi einbeitum við okkur að því sem við þekkjum. Það er mikil samkeppni í þessum geira, en fyrirtæki sem hefur gengið svona vel í 60 ár, ætti að eiga góða möguleika í framtíðinni.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .