Fyrirtækið Hagvangur var stofnað árið 1971 og er eitt elsta ráðgjafarfyrirtæki landsins. Í fyrstu starfaði fyrirtækið á sviði rekstrarráðgjafar. Síðar varð fyrirtækið jafnframt þekkt fyrir skoðanakannanir og ráðningarþjónustu, en upphaf ráðningarþjónustunnar má rekja til ársins 1976. Um áramótin 2002/2003 keyptu Katrín S. Óladóttir, núverandi framkvæmdastjóri Hagvangs, og Þórir Á Þorvarðarson, stjórnarformaður fyrirtækisins, Hagvang. Frá þeim tíma hafa þau verið að byggja fyrirtækið upp sem alhliða fyrirtæki á sviði ráðninga og mannauðsráðgjafar. Leifur Geir Hafsteinsson var ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins um síðustu áramót sem faglegur stjórnandi.

Katrín segir að fyrirtækin sem sérhæfi sig í mannaráðningum á Íslandi séu nokkur. Hagvangur er elsta fyrirtækið. „Við höfum átt mjög farsælan feril. Þetta hefur verið traustur og farsæll rekstur. Það er ekki hægt að segja annað,“ segir Katrín. Hún segir að fyrirtækið eigi traustan viðskiptamannahóp. „En sem betur fer er ákveðin endurnýjun í viðskiptalífinu. Það koma inn ný fyrirtæki og nýjar starfsgreinar. Auðvitað er það stór hluti af okkar starfsemi að vakta þau viðskiptatækifæri og fylgjast með breytingum á vinnumarkaðinum,“ segir hún. Katrín segir að fyrirtækin sem eru í viðskiptum við Hagvang séu mjög ólík að stærð og gerð, bæði einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki. Viðskiptavinirnir komi úr öllum áttum. „Síðan tökum við líka á móti einstaklingum sem eru í starfi en vilja skipta um starf, hafa áhuga á því að koma sér á framfæri og láta vita af sér,“ segir Katrín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .