Hagnaður tékkneska flugfélagsins Travel Service, sem er í eigu Icelandair Group og er annað stærsta fyrirtæki samstæðunnar, næstum því tvöfaldaðist milli áranna 2007 og 2006.

Hann nam 155 milljónum tékkneskra króna (762 milljónir íslenskra króna) árið 2007, samanborið við 80 milljónir tékkneskra króna (393 milljónir íslenskra króna) árið áður, ef marka má frétt Prague Daily Montior.

Þar segir að félagið muni greiða 81,5 milljónir tékkneskra króna (401 milljón íslenskra króna) arð til hluthafa vegna ársins 2007. Þegar síðasti aðalfundar félagsins var haldinn í júní átti Icelandair Group 50% hlut í Travel Service, sem það keypti skömmu áður. Hluturinn hefur aukist í 80%.

Travel Service er stærsta einkarekna flugfélag Tékklands. Það rekur einnig lággjaldaflugfélag undir merkjum Smart Wings. Flugflotinn telur 14 vélar. Félagið starfar einnig í Ungverjalandi, segir í fréttinni.