Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og sprotafyrirtækið Travelade hafa skrifað undir samstarfssamning sem meðal annars felur í sér að nemendur í tölvunarfræði við HR muni vinna meistaraverkefni í samvinnu við fyrirtækið.

Fyrsta verkefnið er að þróa nýja lausn sem nýtist ferðamönnum hér á landi við að finna afþreyingu í samræmi við áhuga hvers og eins segir í fréttatilkynningu. Með gervigreindartækni verður útbúið nýtt meðmælakerfi sem byggist á gögnum um hegðun notenda á vef Travelade. Verkefnið er stutt af Tækniþróunarsjóði Rannís.

Gísli Hjálmtýsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR segir að skólinn leggi mikla áherslu á að nemendur hafi kost á að vinna að fjölbreyttum verkefnum með fyrirtækjum. „Þessi samningur gerir okkur kleift að bæta í þá flóru og bjóða meistaranemum að taka þátt í mjög spennandi þróunarstarfi hjá vaxandi íslensku sprotafyrirtæki. Við erum mjög ánægð með það.“

Raunveruleikinn margslungnari en stjörnugjöf

Andri Heiðar Kristinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Travelade segir að í dag séu meðmælakerfi í ferðageiranum öll fremur almenn.„Það er, þau byggjast að öllu leyti á einfaldri stjörnugjöf en raunveruleikinn er mun margslungnari en það,“ segir Andri Heiðar.

„Það væri t.d. miklu gagnlegra fyrir mig að sjá stjörnugjöf frá fólki sem hefur svipaðan ferðastíl og ég, er á svipuðum aldri og hefur sambærileg áhugamál. Með samstarfinu við HR vonumst við til að taka skref í þá átt að sérsníða meðmælakerfi fyrir ferðamenn sem gæti gjörbreytt því hversu auðvelt er fyrir ferðamenn að finna afþreyingu við sitt hæfi.“

Um Travelade

Travelade er upplýsinga- og bókunarvefur fyrir ferðamenn sem hefur vaxið ört frá því að hann fór í loftið síðastliðið sumar. Þjónustan er nú aðgengileg fyrir ferðamenn á leið til Íslands, Finnlands og Bosníu en fleiri lönd munu bætast við í sumar. Markhópur vefsins er hin svokallaða „AirBnB kynslóð“, þ.e. fólk sem skipuleggur ferðir sínar sjálft á netinu og notast ekki við ferðaskrifstofur eða kaupir tilbúnar pakkaferðir.

Andri Heiðar Kristinsson, fyrrum þróunarstjóri hjá LinkedIn í San Francisco, og Hlöðver Þór Árnason, fyrrum tæknistjóri hjá Já, stofnuðu Travelade í ársbyrjun 2017 og í desember síðastliðnum lauk félagið 160 milljóna króna fjármögnun sem leidd var af Crowberry Capital.

Um Tölvunarfræðideild HR

Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík er stærsta tölvunarfræðideild landsins og hefur getið séð gott orð í vísindasamfélaginu á heimsvísu fyrir öflugar rannsóknir.

Helstu rannsóknarsvið deildarinnar eru gervigreind, fræðileg tölvunarfræði og hugbúnaðar- og tölvukerfi. Nám í tölvunarfræði við HR hefur hlotið alþjóðlega vottun og hefur sérstöðu vegna sterkra tengsla við atvinnulífið og áherslu á raunhæf verkefni. Tölvunarfræðideildir HR og HÍ hlutu sameiginlega upplýsingatækniverðlaun SKÝ árið 2018.