Tvö ört vaxandi sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu, Travelade og TotalHost, hafa náð samkomulagi um sameiningu félaganna til að búa sig undir enn frekari vöxt hér heima og erlendis. Sameinað félag mun starfa undir merkjum Travelade.

TotalHost, sem fór í gegnum viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík árið 2016, gerir leigusölum sem leigja íbúðir sínar ferðafólki, t.d. í gegnum AirBnB, kleift að fá greidda ákveðna þóknun frá ferðaþjónustuaðilum fyrir að mæla með afþreyingu til ferðalanga.

Travelade er samfélags- og upplýsingavefur fyrir ferðamenn sem gerir fólki kleyft að finna og bóka afþreyingu eftir sínum persónulega ferðasmekk. Travelade er nú þegar starfandi á Íslandi og í Bosníu og mun félagið opna á fleiri mörkuðum á næstunni samhliða því að efla starfsemi hér á Íslandi verulega að því er kemur fram í tilkynningu.

“Ísland hefur alla burði til þess að verða leiðandi í heiminum þegar kemur að ferðaþjónustu og ferðatækni. Með því að sameina krafta okkar við TotalHost verðum við enn betur í stakk búin til að takast á við alþjóðlega samkeppni og útflutning á íslensku hugviti til stuðnings ferðaþjónustunni. Ég hef stundum líkt því tækifæri sem við stöndum frammi fyrir núna við þá stöðu sem Marel var í fyrir nokkrum áratugum - enda eru bæði sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan byggð á takmörkuðum auðlindum landsins. Tækifærin liggja í því að auka gæði og nota tækni til að hámarka verðmætasköpun. Í kjölfarið myndast tækifæri til að flytja út slíkar lausnir til annarra landa, á sambærilegan hátt og Marel hefur gert” er haft eftir Andra Heiðari, framkvæmdastjóra Travelade.

Í sameinuðu félagi munu leigusalar fá sína persónulega ferðasíðu með úrvali af dagsferðum, bílaleigum og upplýsingum fyrir ferðamenn. Travelade er í samstarfi með öllum helstu ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi og geta leigusalar því vísað ferðamönnum á breitt úrval ferða víðsvegar um landið.