Dave Stewart hefur verið ráðinn forstjóri íslenska ferðatæknifyrirtækisins Travelshift, sem rekur meðal annars Guide to Iceland og Guide to Europe. Dave er Bandaríkjamaður og starfaði áður sem framkvæmdastjóri framtaksfjárfestinga hjá State Street Global Advisors, sem er fjórða stærsta eignastýringarfyrirtæki heims með yfir 4.000 milljarða Bandaríkjadala í stýringu.
„Eftir að hafa setið í stjórn Travelshift í gegnum heimsfaraldinn og séð hvernig fyrirtækinu tókst að blómstra þrátt fyrir erfiðar aðstæður varð ég sannfærður um að þetta fyrirtæki hafi skapað eitthvað einstakt. Þegar tækifæri gafst til að slást í hópinn var ómögulegt að stökkva ekki til. Ég er gríðarlega spenntur fyrir tækninni sem Travelshift hefur þróað og ég hef trú á að hún muni gjörbreyta ferðaháttum fólks, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim,“ er haft eftir Dave Stewart í fréttatilkynningu.
Sjá einnig: Guide to Iceland verður Travelshift
Dave flytur til Íslands frá Bandaríkjunum ásamt fjölskyldu sinni á næstu vikum. Hann slæst í hóp yfirstjórnenda sem nýlega hafa gengið til liðs við Travelshift. Þeirra á meðal er Dr. Jakob Ásmundsson fjármálastjóri, en hann stýrði áður Straumi fjárfestingabanka og Rapyd Europe.
Þá tók Harshal Chaudhari, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá General Electrics Pension Trust, nýlega við stjórnarformennsku félagsins.
Travelshift var stofnað árið 2012 og rekur meðal annars Guide to Iceland, markaðstorg sem er notað af yfir 1.500 ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi. Yfir milljón ferðamenn heimsækja vefsíðuna í hverjum mánuði.