Travia, nýtt markaðstorg fyrir ferðaskrifstofur, er nú orðið eitt af fimm stærstu bókunarrásum fyrir hótelgistingar á Íslandi. Um 12% allra hótelbókana á Íslandi í ár hafa verið framkvæmdar í gegnum Travia, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Travia er nýr hugbúnaður frá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Godo. Markaðstorgið tengir ferðaskrifstofur beint við framboð hótela og gerir þeim þannig kleift að sækja verð og bóka beint inn í hótelbókunarkerfi á skilvirkari hátt en áður hefur verið mögulegt, að sögn forsvarsmanna Godo.

„Það vekur athygli að í kjölfar Covid-19 faraldursins hefur borið á aukningu bókana í gegnum ferðaskrifstofur, sem er jákvæð þróun fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem stór hluti ferðaskrifstofanna er íslenskur. Gríðarleg aukning hefur orðið í bókunum vegna þessa í gegnum Travia.“

Flestir ferðamenn bóka gistingar í gegnum erlendar bókunarsíður líkt og booking.com og Expedia.  Travia stefnir á að veita erlendu bókunarrisunum harða samkeppni.

„Rekstraraðilar í ferðaþjónustunni og aðrir hagsmunaaðilar hafa verið uggandi yfir þeim fjármunum sem þannig streyma út úr íslensku hagkerfi í formi hárra þóknana sem erlendu bókunarsíðurnar taka fyrir hverja selda gistinótt.“

Fyrirtækið segir að þrátt fyrir sveiflur og óstöðugleika sökum Covid-19 faraldursins hafi ferðasumarið reynst gott. Ólíkir aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa staðið sig vel í að búa til góða upplifun fyrir innlenda og erlenda ferðamenn við krefjandi aðstæður. „Vonandi skilar starfið sem unnið hefur verið hingað til í enn betra ári 2022 fyrir ferðaþjónustuna.“