Hvítasunnan er um næstu helgi og hefð er fyrir því að sala á trjám og garðplöntum hefjist í kringum hana eða um miðjan maí. Sala á sumarblómum stendur að jafnaði í miklum blóma frá miðjum maí og fram yfir miðjan júní en minkar mikið eftir það. Sala á fjölæringum, trjám og runnum í garða og sumarbústaðalönd stendur aftur á móti fram eftir sumri.

Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, segir að skortur á hagtölum standi garðyrkjustéttinni nokkuð fyrir þrifum.

„Vorið 2006 var gerð úttekt á veltu fyrirtækja í garð- og skógarplöntuframleiðslu og reyndist hún vera rúmar 636 milljónir króna. Því miður hefur þessari úttekt ekki verið fylgt eftir þannig að ég veit ekki hvort það hefur orðið aukning í veltu síðan þá. Tölur að þessu tagi eru náttúrlega grundvallarupplýsingar sem greinin þarf að hafa á reiðum höndum ef hún ætlar að standa skil á stöðu sinni.

Hluti skýringarinnar á skorti á þessum tölum er einfaldlega sá að aðilar í greininni hafa ekki viljað gefa þær upp. Í könnunni frá 2006 kom fram að innan þessa geira er að finna 184 ársverk hjá 49 framleiðendum af ýmsum stærðum. Ég tel þó að þetta geti breyst á næstunni þar sem tollar á innfluttum blómum voru lækkaðir fyrir skömmu,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .