Íslenska sprotafyrirtækið Treble Technologies hefur lokið 232 milljóna króna fjármögnun. Fyrirtækið sérhæfir sig í hugbúnaði á sviði hljóðhermunar og hefur starfað frá síðari hluta ársins 2020.

Fyrirtækið vinnur hörðum höndum að þróun sinnar fyrstu vöru sem stefnt er á að komi á markað seinni hluta næsta árs. Fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarlausn fyrir byggingageirann sem gerir hönnuðum og eigendum bygginga færi á að móta hljóðheim og hljóðvist hönnunar sinnar. Þessi lausn auðveldar þeim að taka upplýstar ákvarðanir um efnisval, form og fleira á grundvelli nákvæmrar hermunar og stafrænnar upplifunar.

Helstu fjárfestar eru Börkur Arnviðarson, stofnandi ChemoMetec, félagið Omega ehf., Sigþór Sigmarsson og Trausti Kristjánsson. Sigþór Sigmarsson, verkfræðingur og fjárfestir, tekur sæti í stjórn fyrirtækisins fyrir hönd fjárfestahópsins.

„Treble er að þróa tækni sem getur gjörbylt því hvernig hljóð og hljóðvist er tekin inn í hönnun umhverfis okkar. Þetta er afar öflugt teymi sem byggir lausnir sínar á eigin rannsóknum og eru þau einfaldlega fremst á sínu sviði í heiminum. Það verður afar spennandi að taka þátt í þessu og fylgjast með þróun félagsins. Við sjáum mörg tækifæri á markaði fyrir tækni Treble," segir Sigþór.

Dr. Finnur Pind, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Treble Technologies, segist afar stoltur af því að félaginu hafi tekist að klára þessa fjármögnun en það sé til merkis um að félagið sé á réttri leið. „Þetta fjármagn og þessir öflugu bakhjarlar gera okkur kleift að bæta við okkur rétta fólkinu og setja fullan kraft og aukna einbeitingu í að ná markmiðum okkar sem snúa að þróun og markaðssetningu fyrstu lausnarinnar."

Haft er eftir Finni að mikil vitundarvakning hafi orðið á því hversu víðtæk áhrif hljóð hafi á líðan fólks. ,,Fyrsta lausn Treble mun gefa hönnuðum bygginga færi á að tryggja að viðunandi hljóðvist fáist í byggingum og að hægt sé taka mið af því frá fyrstu stigum hönnunarferlisins."

Samkvæmt Gunnari Pétri Haukssyni, sem stýrir fjármögnun og viðskiptaþróun fyrirtækisins, er byggingageirinn einungis fyrsti markaðurinn sem Treble stefnir á. „Við erum spennt fyrir því að ryðja okkur til rúms á sviði tölvuleikja og sýndarveruleika þar sem tæknin okkar gefur færi á töluvert raunverulegri upplifun hljóðs í stafrænum heimum en mögulegt hefur verið hingað til."