Fyrirtækið Trefjar ehf. hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2012. Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Þau eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslunar og gjaldeyrisöflunar íslensku þjóðarinn. Verðlaunin voru fyrst veitt 1989. Meðal annarra fyrirtækja sem hafa hlotið verðlaunin eru Össur, Sæplast, Guðmundur Jónasson, GoPro Landsteinar, Bláa lónið, CCP og Marel og á síðasta ári hlaut Ferðaþjónusta bænda verðlaunin.

Í tilkynningu um veitingu verðlaunanna segir að Trefjar fái verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun og smíði báta úr trefjaplasti til fiskveiða. „Á tímum þegar almennur framleiðsluiðnaður hefur átt undir högg að sækja hér á landi hafa Trefjar sótt fram og leitað markaða innanlands og erlendis fyrir framleiðsluvörur sínar og sýnt lofsvert frumkvæði í markaðsfærslu og vöruþróun. Trefjar framleiða gæðavörur sem eiga greiðan aðgang inn á alþjóðlegan markað og er fyrirtækið góð fyrirmynd fyrir þann fjölda fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á íslenskri þekkingu og reynslu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.“