Húsnæðisverð hefur hækkað mikið undanfarið og er helsta ástæðan lítið framboð. Tekist var á um stefnu borgarinnar í lóðamálum á fundi borgarstjórnar í fyrradag.

„Á 5 ára tímabili eða frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2016 hefur Reykjavíkurborg einungis úthlutað 12 lóðum fyrir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum. Þar af hefur einungis sex af lóðunum verið úthlutað á þessu kjörtímabili,“ segir í bókun Framsóknar og flugvallarvina.

Meirihluti Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar svaraði því til að villandi væri að nota fjölda lóðaúthlutana á undanförnum árum sem mælikvarða á hversu vel gengi að framfylgja húsnæðisáætlunum.

„Nær væri að líta til heildarfjölda uppbyggingarverkefna og þess byggingarmagns sem í gangi er í borginni hverju sinni. Fjöldi íbúða í uppbyggingu á þessu ári gæti náð 2.000 íbúðum.“

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn segja að það vanti 5.000 íbúðir nú þegar. Hægt gangi að byggja á þéttingarreitum enda séu slíkar lóðir dýrari og þyngri í vöfum en nýskipulagðar lóðir í hverfi í vexti eins og í Úlfarsárdal.

„Þessi seinagangur og tregða meirihlutans við að úthluta fleiri lóðum hefur þau áhrif að verð íbúða hefur rokið upp í borginni með auknum erfiðleikum fyrir fólk við að koma þaki yfir höfuðið.“