Lánasamningur sá er Össur hf. gerir við þrjá erlenda banka og greint var frá á vb.is í gærmorgun er í raun gerður við erlend dótturfélög Össurar. Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag og hefur eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, að í kjölfar efnahagshrunsins treysti erlendir bankar ekki  íslensku efnahagskerfi, viðskiptaumhverfinu og löggjöfinni. Tengingin við Ísland hafi reynst fyrirtækinu fjötur um fót. „Eftir efnahagshrunið eru gerðar aðrar kröfur en áður, sérstaklega til lítillar einangraðar þjóðar eins og Íslands,“ segir Jón og telur að erlendis ríki algjör vantrú á Íslandi.

Að hans sögn var lánið skilyrt þannig að ekki megi geyma stóra hluta þess á Íslandi. Nota megi það til þess að greiða upp lán við Arion banka, eins og fram kom á vb.is í gær, og að einhverju mæta veltufjárþörf móðurfélagsins.