Þrátt fyrir að fólk trúi því að það geti haft jákvæð áhrif á umhverfið eru mun færri sem eru tilbúnir að greiða meira fyrir vörur sem merktar eru sérstaklega sem umhverfisvænar. Kemur þetta fram í ítarlegri rannsókn á neysluhegðun Kanadabúa, en greint var frá niðurstöðunum í dag.

Þar segir að um 80% Kanadabúa trúi því að neysluhegðun þeirra geti haft jákvæð áhrif á umhverfið og að þeir séu tilbúnir að gera hluti eins og að nota endurnýtanlega innkaupapoka til að minnka plastnotkun. Aðeins um 40% aðspurðra sögðust hins vegar vera tilbúin að greiða meira fyrir umhverfisvænar vörur. Hluti af ástæðunni er sá að fólk dregur í efa að umhverfismerkingar séu allar verðskuldaðar. Um 66% þátttakenda sögðust telja að merkingar um að vara sé „græn“ eða „umhverfisvæn“ séu misvísandi.