Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng eru að mestu leyti fjármagnaðar með 8,7 milljarða króna láni ríkissjóðs til félagsins Vaðlaheiðarganga hf. sem samþykkt var með lögum árið 2012. Í viðskiptaáætlun félagsins er gert ráð fyrir að það geti endurfjármagnað sig árið 2018 með útgáfu verðtryggðs skuldabréfs með 3,7% raunvöxtum.

Í greinargerð vegna lánveitingarinnar úr ríkissjóði var hins vegar lýst yfir efasemdum um að það geti gengið eftir og vakin athygli á því að hár vaxtakostnaður geti grafið undan rekstrargrundvelli ganganna. Sérstök hætta væri á þessu ef stofnkostnaður yrði umfram áætlun.

Í samtali við Viðskiptablaðið segja stjórnendur Vaðlaheiðarganga hf. að sú verði líklega raunin. Í lánasamningi ríkissjóðs og Vaðlaheiðarganga er kveðið á um að Vaðlaheiðargöng hf. geti óskað eftir framlengingu lánsins ef ekki næst að endurfjármagna það á viðunandi kjörum. Slík framlenging geti farið fram einu sinni eða oftar. Kjör framlengds láns muni fara eftir þeim kjörum sem ríkissjóður nýtur auk hæfilegs vaxta­ álags út frá markmiðum um rekstur ganganna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .