Bókfærð iðgjöld með líftryggingar hjá íslenskum líftryggingafélögum jukust um 7% á milli áranna 2012 og 2013, úr 2,84 milljörðum í 3,04 milljarða. Á sama tíma jukust eigin líftryggingabætur félaganna um 7,5% og voru 849 milljónir 2012 borið saman við 913 milljónir í fyrra. Hagnaður var samtals 1,24 milljarðar í fyrra og jókst um 8,2% á milli ára úr 1,15 milljörðum.

Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs TM, segir skýringu á auknum áhuga á líf- og heilsutryggingum fyrst og fremst vera tvíþætta. Í fyrsta lagi sjái fólk aukna ástæðu til að kaupa tryggingarnar vegna þess að það telur ólíklegra en áður að þjónusta heilbrigðis- og almannatryggingakerfis veiti þá þjónustu sem það telur sig þurfa til að lifa viðunandi lífi eftir slys eða erfið veikindi. „Fólk vill lifa góðu lífi jafnvel þó að eitthvað komi upp tímabundið eða það lendi í langvarandi veikindum,“ segir Ragnheiður.

Nánar er fjallað um málið í Lífeyri og tryggingum, sérblaði sem fylgdi með Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .