Aðeins 35% íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) eru óhræddir við að kaupa vöru á netinu yfir landamæri frá kaupmanni sem er í öðru EES ríki, að því er fram kemur í könnun um neytendamál árið 2012 sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins framkvæmdi.

Neytendum sem stunda rafræn viðskipti á netinu fer fjölgandi, en árið 2012 var talið að 41% neytenda myndi stunda slík viðskipti samanborið við 38% árið áður. Einungis 11% neytenda þóttu líkleg til að stunda viðskipti á netinu yfir landamæri árið 2012 samanborið við 9,6% árið 2011. Neytendur segjast treysta betur kaupum í gegnum netið innanlands heldur en milli ríkja, eða 59% á móti 35% sem treysta á slík viðskipti milli ríkja.

Ýmsar hindranir eru í viðskiptum milli ríkja EES sem valda þessum mun en í sumum tilvikum taka seljendur ekki við erlendum greiðslukortum og þá hafa vörur ekki alltaf skilað sér yfir landamæri til neytenda.