Íslendingar eru meðal þeirra sem óttast mest áhrif kórónuveirufaraldursins á sína nákomnu sem og meðal þeirra sem eru tilbúnastir til að fórna mannréttindum til að hjálpa til við að hindra útbreyðslu COVID-19 sjúkdómsins.

Jafnframt eru Íslendingar ofarlega í hópi þeirra sem telja að heimurinn hverfi nokkurn veginn í óbreytt ástand eftir sjúkdóminn, sem og að meiri samvinna muni ríkja meðal þjóða, að því er fram kemur í nýrri könnun Alþjóðlegu Gallupsamtakanna sem Gallup tók þátt í núna í apríl, eitt 17 ríkja.

Loks treysta Íslendingar ríkisstjórn sinni best allra til að takast á við faraldurinn, og hafa minnstar áhyggjur af því að hættan af veirunni sem veldur Covid 19 sé ýkt, sem og hafa minnsta trú á því að faraldurinn sé af öðrum orsökum en náttúrulegum.

Í fimmta sæti yfir ótta um nákomna

Nær 85% Íslendinga eru hræddir um að annað hvort þeir eða einhver í fjölskyldu þeirra gæti smitast af COVID-19. Aðeins í Indónesíu, Argentínu, Suður-Kóreu og á Filippseyjum er hlutfallið hærra.

Síðan í mars hefur hlutfall þeirra sem óttast smit hækkað mest í Bandaríkjunum, eða um 25 prósentustig, en lækkað mest á Ítalíu og í Rússlandi. Þannig var hlutfallið hæst í Indónesíu 94% núna í apríl, 90% í Argentínu, 89% í Suður Kóreu og 89% í Filippseyjum.

Treysta stjórnvöldum best

Ríflega 96% Íslendinga telja stjórnvöld vera að takast vel á við COVID-19 og er hlutfallið hvergi hærra. Það er lang lægst í Tælandi og Japan en Bandaríkin og Rússland koma þar á eftir. Síðan í mars hefur hlutfallið hefur hækkað mest í Þýskalandi, eða um 26 prósentustig, en lækkað mest á Ítalíu.

Merkilegt hlýtur að teljast að hlutfall þeirra sem treysta stjórnvöldum er næst hæst á Indlandi, en Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um stöðu mála þar og í öðrum þróunarríkjum á dögunum.

Þriðjungi færri Bandaríkjamenn telja hættuna ýkta

Aðeins 7% Íslendinga telja að sú ógn sem stafar af COVID-19 sé ýkt og er hlutfallið hvergi lægra, en hæst er það í Pakistan, eða 62% í apríl. Nær alls staðar hefur hlutfall þeirra sem telja ógnina ýkta lækkað síðan í mars en mest hefur það lækkað í Bandaríkjunum og Þýskalandi, eða um 36 og 34 prósentustig, úr 60% í mars niður í 24% nú í apríl.

Tæplega 84% Íslendinga eru tilbúin að fórna einhverjum mannréttinda sinna ef það hjálpar til við að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19. Ekki eru til tölur yfir þetta fyrir Ísland í mars öfugt við hin ríkin.

Hæst er hlutfallið á Indlandi, eða 96%, en lang lægst í Japan, eða 49%. Þó hlutfallið sé einna lægst í Bandaríkjunum hefur það hækkað mest þar síðan í síðasta mánuði, eða úr 54% í 73%

Óbreytt heimsmynd en samt meira samstarf ríkja

Rúmlega sex af hverjum tíu Íslendingum telja að heimurinn muni hverfa nokkurn veginn til fyrra ástands þegar COVID-19 faraldurinn er genginn yfir, en tæplega fjórir af hverjum tíu telja að það verði miklar breytingar í kjölfar faraldursins og heimurinn verði nánast gjörbreyttur.

Hlutfall þeirra sem telja að heimurinn verði mjög breyttur eftir faraldurinn er einna hæst á Filippseyjum og Ítalíu þar sem hátt í tveir af hverjum þremur telja það.

Nær 65% Íslendinga telja að samskipti valdamestu ríkja heims muni einkennast af meiri samvinnu eftir COVID-19 faraldurinn á meðan rúmlega 35% telja að þau muni einkennast af meiri árekstrum. Hæst hlutfall þeirra sem telja að samskiptin muni einkennast af meiri samvinnu er í Indónesíu, eða 88%, en lægst í Rússlandi, eða 46%.

Fæstir trúa hér á að veiran sé viljaverk

Nær 92% Íslendinga telja að útbreiðsla veirunnar hafi orðið með náttúrulegum hætti en nær 8% telja að erlendir aðilar eða önnur öfl hafi viljandi valdið útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19.

Hlutfall þeirra sem telja útbreiðslu veirunnar ekki hafa orðið með náttúrulegum hætti er afar misjafnt eftir löndum en er lægst á Íslandi. Hæst er það í Armeníu en þar telja sjö af hverjum tíu að útbreiðslan hafi ekki orðið með náttúrulegum hætti.