Endurskoðendur Orkuveitu Reykjavíkur treystu sér ekki til að verðmeta 20 ára þjónustusamning OR og Reykjavík Energy Invest, að því er fram kemur í svari Reykjavíkurborgar til umboðsmanns Alþingis. “Endurskoðendur OR treystu sér ekki til að verðmeta þjónustusamninginn eða láta í té álit á því hversu mikils virði hann væri. Viðurkennt er að erfitt er að verðmeta óefnisleg gæði, s.s. “good will” fyrirtækja, mannauð, þekkingu og viðskiptasambönd. Halda má því fram að slík gæði séu þess virði sem gagnaðilinn er reiðubúinn að greiða.” Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var samningurinn metinn á tíu milljarða króna.

Í svari Reykjavíkurborgar til umboðsmanns segir að verðmæti hluta OR í einstökum félögum sem látnir voru inn í REI byggði á mjög nýlegum matsgerðum og kaupsamningum um þessa hluti. Staðgóðar upplýsingar hafi legið fyrir um verðmæti Enex, Enex í Kína og Hitaveitu Suðurnesja. “Þetta eru þær eignir sem mynda það eignasafn sem látið var renna inn í REI. Löggiltur endurskoðandi OR og REI hefur staðfest að virði þessara hluta hafi verið til staðar eins og lögskylt er.”

Í svarinu, sem þekur átta blaðsíður, segir einnig að við allar þær ákvarðanir stjórnar OR og REI um samruna REI og Geysis Green Energy hafi verið gengið út frá því að fyrirtækin væru einkaréttarlegir aðilar. “Þau lúta sem slík ekki reglum opinbers réttar nema í þeim verkefnum sem eru sérstaklega falin sveitarfélögum að lögum eða hafa verið falin OR á grundvelli einkaleyfis. Hefur Reykjavíkurborg einnig haft þá sýn á starfsemi og eðli félaganna.”

Síðan segir: “Í þessu máli hefur hins vegar komið í ljós að gæta þarf betur að gegnsæi ákvarðanatöku, aðkomu kjörinna fulltrúa og eigenda að ákvörðunum OR. Er m.a. fullt tilefni til að velta fyrir sér til hvers stöðuumboð borgarstjóra nær en borgarstjóri fer með atkvæðisrétt í öllum hluta- og sameignarfélögum sem Reykjavíkurborg á hlut í. Það hlutverk borgarstjóra er ekki bundið við OR.”

Í svarinu segir að til að bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hafi komið á meðferð málsins hafi borgarráð samþykkt hinn 18. október að setja á laggirnar sérstakan stýrihóp um heildarstefnumótun og úttekt á málefnum OR. Fyrir hópnum fer Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og staðgengill borgarstjóra.