Jean-Claude Trichet, forseti Evrópska seðlabankans, varaði við því í gær að endalok lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum væri enn ekki í augsýn, og bætti því við að alþjóðahagkerfið væri enn að ganga í gegnum „verulega leiðréttingu á mörkuðum".

Í viðtali við breska ríkisútvarpið (BBC) sagði Trichet að peningamálayfirvöld þyrftu að gera það að sínu helsta forgangsatriði að halda verðbólgu í skefjum.

„Verðstöðugleiki og trúverðugleiki peningastefnunnar í augum almennings til meðallangs tíma er besta leiðin til að halda uppi öflugum hagvexti og stuðla að viðvarandi atvinnusköpun," sagði Trichet.

Hann varaði stjórnvöld við því að grípa til rangra aðgerða sem gæti aukið hættuna á „annarri umferð" verðbólgu líkt og raunin var í kjölfar olíukreppunnar á áttunda áratugnum. Hann sagði að sein - og jafnframt röng - viðbrögð stjórnvalda á þeim tíma hefðu gert það að verkum að há verðbólga náði að festast í sessi til lengri tíma og valdið stórfelldu atvinnuleysi í Evrópu.

Spurður hvort hann teldi að ástandið á fjármálamörkuðum myndi fara batnandi á næstu vikum og mánuðum, ítrekaði Trichet að það væri enn of snemmt að fullyrða um slíkt. Öll vandræðin á fjármálamörkuðum væru ekki úr sögunni, sagði seðlabankastjórinn.