Ekki sér fyrir enda þess óróa sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og hagstjórnaraðilar þurfa að vera reiðubúnir til að taka í taumana ef þarf, segir Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu.

„Við horfum í dag upp á stærðarinnar leiðréttingu á mörkuðum," sagði Trichet við blaðamenn eftir að hafa hitt fjármálaráðherra og seðlabankastarfsmenn á fundi G-7 ríkjanna í Tokyo.

Orð Trichets eru í takt við þau er hann lét falla á blaðamannafundi í Frankfurt þann 7.febrúar síðastliðinn, en þá varaði hann við versnandi verðbólguhorfum. „Seðlabanki Evrópu þarf nú að festa verðbólguvæntingar í sessi."

Seðlabanki Evrópu ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4% í vikunni. Trichet var þó sagður gefa til kynna að vaxtalækkun kynni að vera handan við hornið, en Englandsbanki lækkaði stýrivexti í vikunni um 25 punkta í 5.25%.