Bankastjóri Evrópska seðlabankans óttast að vaxandi verðbólga festist í sessi í væntingum almennings, sem gæti hrundið af stað launa- og verðlagsskrúfu. Nánast fullvíst er talið að stýrivextir hækki í 4,25% í næstu viku.

Evrópski seðlabankinn er mjög á varðbergi gagnvart auknum verðbólguþrýstingi, sagði Jean-Claude Trichet seðlabankastjóri í ræðu sem hann flutti fyrir Efnahags- og peningamálanefnd Evrópuþingsins í gær.

Trichet sagðist einkum hafa áhyggjur af því að vaxandi verðbólga myndi festast í sessi í væntingum almennings. Slík þróun myndi geta hrundið af stað launaog verðlagsskrúfu sem erfitt yrði að vinda ofan af. Nýlegar hækkanir á vísitölu neysluverðs á evrusvæðinu gætu einnig afvegaleitt almenning til að trúa því að há verðbólga væri komin til að vera, sagði Trichet. Hann bætti því við að brýnt væri að verðbólguvæntingar héldust í samræmi við verðbólgustigið hverju sinni.

Aðspurður neitaði Trichet að tjá sig sérsaklega um hvernig Evrópski seðlabankinn myndi haga peningastefnu sinni eftir næsta vaxtaákvörðunarfund. „Ég sagði ekki að við sæjum fyrir okkur röð stýrivaxtahækkana. Ég sagði það ekki!,“ sagði Trichet, og bætti því við að Evrópski seðlabankinn skuldbindi sig aldrei fyrirfram. Sú stefna hefði veitt seðlabankanum ákveðinn trúverðugleika, sem væri honum nauðsynlegur í baráttunni gegn verðbólgu.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .