Kínversk yfirvöld íhuga nú að hefta útflutning svokallaðra sjaldgæfra málma (e. rare earths), sem útspil í tollastríði sínu við Bandaríkin, sem sífellt meiri harka færist í.

Málmarnir eru notaðir í allskyns framleiðslu – allt frá rafbílum og snjallsímum yfir í olíuhreinsunarstöðvar, segla og gleriðnað – en kínverskar námur standa undir um 70% af námugreftri slíkra málma á heimsvísu, og um 90% af vinnslu þeirra.

Samskiptum stórveldanna hefur hrakað mjög hratt frá því ekkert varð úr fyrirhuguðum viðskiptasamning í upphafi þessa mánaðar. Í kjölfar viðskiptabanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta gegn kínverska tæknirisanum Huawei fyrir tveimur vikum heimsótti Xi Jinping, forseti Kína, seglaverksmiðju sem notar sjaldgæfa málma í framleiðsluna. Mikið var fjallað um heimsóknina í Kína, og hún hefur víða verið túlkuð sem lítt dulbúin hótun.

Kínversk yfirvöld hafa áður notað útflutningshömlur á málmana sem vopn í milliríkjadeilu. Fyrir tæpum áratug voru þau notuð gegn Japan vegna deilna um yfirráðasvæði landanna.

Um 80% innflutnings málmanna til Bandaríkjanna kemur frá Kína, og samkvæmt umfjöllun BBC um málið gætu höft eða blátt bann við útflutningi haft veruleg áhrif á bandarískan iðnað. Verðmæti þeirrar framleiðslu innan Bandaríkjanna sem málmarnir eru notaðir í hleypur á trilljónum dollara, sem jafngildir hundruðum þúsunda milljarða króna.