*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Erlent 31. maí 2019 07:30

Trilljóna dollara framleiðsla í húfi

Kínversk yfirvöld íhuga útflutningshöft á sjaldgæfa málma til Bandaríkjanna, sem gætu raskað framleiðslu þar verulega.

Júlíus Þór Halldórsson
Xi Jinping hefur verið aðalritari kommúnistaflokks Kína, formaður yfirstjórnar hersins, og forseti landsins frá 2012.
epa

Kínversk yfirvöld íhuga nú að hefta útflutning svokallaðra sjaldgæfra málma (e. rare earths), sem útspil í tollastríði sínu við Bandaríkin, sem sífellt meiri harka færist í.

Málmarnir eru notaðir í allskyns framleiðslu – allt frá rafbílum og snjallsímum yfir í olíuhreinsunarstöðvar, segla og gleriðnað – en kínverskar námur standa undir um 70% af námugreftri slíkra málma á heimsvísu, og um 90% af vinnslu þeirra.

Samskiptum stórveldanna hefur hrakað mjög hratt frá því ekkert varð úr fyrirhuguðum viðskiptasamning í upphafi þessa mánaðar. Í kjölfar viðskiptabanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta gegn kínverska tæknirisanum Huawei fyrir tveimur vikum heimsótti Xi Jinping, forseti Kína, seglaverksmiðju sem notar sjaldgæfa málma í framleiðsluna. Mikið var fjallað um heimsóknina í Kína, og hún hefur víða verið túlkuð sem lítt dulbúin hótun.

Kínversk yfirvöld hafa áður notað útflutningshömlur á málmana sem vopn í milliríkjadeilu. Fyrir tæpum áratug voru þau notuð gegn Japan vegna deilna um yfirráðasvæði landanna.

Um 80% innflutnings málmanna til Bandaríkjanna kemur frá Kína, og samkvæmt umfjöllun BBC um málið gætu höft eða blátt bann við útflutningi haft veruleg áhrif á bandarískan iðnað. Verðmæti þeirrar framleiðslu innan Bandaríkjanna sem málmarnir eru notaðir í hleypur á trilljónum dollara, sem jafngildir hundruðum þúsunda milljarða króna.

Stikkorð: Donald Trump Xi Jinping
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is