Eva Dögg var nýlega ráðin sem verkefnastjóri til BIOEFFECT. „Ég er búin að vera aðdáandi þessa fyrirtækis mjög lengi og varanna frá því,“ segir Eva. „Ég hef fylgst með þessu fyrirtæki, ég hef skrifað mikið um það og alltaf þótt það spennandi. Ég sá síðan auglýsingu frá fyrirtækinu og ákvað að ég yrði að prófa. Ég var ekki beint að leita mér að vinnu, en ég sá auglýsinguna, fannst þetta spennandi og gat ekki sleppt þessu tækifæri. Þetta fyrirtæki er búið að ná ótrúlegum árangri á erlendum mörkuðum og hér heima líka. Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu.“

Eitthvað við nýveiddan fisk

Eva er gift Bjarna Ákasyni framkvæmdastjóra og á fjögur börn og þrjú stjúpbörn. „Ég er mjög mikil fjölskyldumanneskja. Við erum með sjö börn samtals þannig að þetta er mjög stór fjölskylda.“

Eva segir að henni þyki fátt skemmtilegra en að veiða, en hún fer bæði á lax- og trilluveiðar. „Mér finnst mjög gaman að veiða og þá sérstaklega lax. Ég fer þó einnig á trilluna á Hjalteyri, mér finnst það alveg frábært. Mér finnst bara rosalega gaman að veiða þrátt fyrir að ég sé enginn sérfræðingur að kasta flugu. Ég hef alveg jafn mikið gaman af því þegar aðrir veiða í kringum mig, þetta er bara stemmingin og félagsskapurinn í kringum veiðina. Það er eitthvað við nýveiddan fisk sem er alveg æðislegt, ég bara get ekki lýst því. Þegar ég er á trillunni þá veiði ég meira til matar en laxinum sleppi ég að mestu.“

Nánar er rætt við Evu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með að ýta á Innskráning.