*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 17. ágúst 2019 19:01

TripAdvisor fyrir verktaka og einyrkja

Aðstandendur Facebook-hópsins Vinnu með litlum fyrirvara hafa stofnað fyrirtæki sem byggir á hópnum.

Jóhann Óli Eiðsson
Garðar Héðinn Sigurðsson, Jónatan Einarsson og Herdís Kristjana Hervinsdóttir standa að baki Vinnu með litlum fyrirvara ehf.
Haraldur Guðjónsson

„Við byrjuðum eiginlega á öfugum enda með því að stofna Facebook-síðuna á undan fyrirtækinu,“ segir Garðar Héðinn Sigurðsson einn stofnenda Vinnu með litlum fyrirvara ehf.

Nafnið hljómar vafalaust kunnuglega í eyrum margra en samnefnd Facebook-síða hefur verið starfrækt í rúm fjögur ár. Markmið síðunnar og hins nýja fyrirtækis er að tengja saman, skjótt og auðveldlega, verktaka og þá sem þurfa á þeim að halda. Um verk af öllum tegundum, stærðum og tímalengdum getur verið að ræða.

Hið nýja félag er stofnað af þremur stjórnendum síðunnar sem borið hafa hitann og þungann af stjórn hennar. Auk Garðars eru þar á ferð Herdís Kristjana Hervinsdóttir og Jónatan Einarsson. Á degi hverjum birtast tugir auglýsinga inn á síðunni og umtalsverð vinna felst í því að vakta efnið sem þar birtist.

„Við fáum meldingu um leið og eitthvað nýtt kemur inn og maður reynir að fylgjast með þessu. Ef ég væri ekki með símann stilltan á „silent“ þá væri ég fyrir löngu orðinn geggjaður,“ segir Garðar og hlær.

Á næstu dögum mun á vegum þess fara í loftið vefsíða og snjallforrit sem lýsa mætti sem hálfgerðu TripAdvisor fyrir verktaka og einyrkja. Að verki loknu getur fólk síðan sett inn umsögn og gefið þeim einkunn eftir því hvernig verkið vannst.

„Planið er að geta haldið utan um þetta betur en hægt er með Facebook. Þar birtist auglýsingin, samkomulag næst en síðan er erfitt að hafa einhverja eftirfylgni. Með þessum hætti er hægt að mæla með fyrirtækjum, senda inn fyrirspurnir og hafa betri yfirsjón,“ segir Garðar.

„Við erum ekki að fara að loka eða breyta hópnum. Við erum bara að koma á fótum öruggari og varanlegri miðli. Síðan verður fólk bara að ákveða hvort það færi sig yfir eða ekki,“ segir Garðar að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér