*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 20. apríl 2018 14:29

TripAdvisor kaupir Bókun ehf.

Forstjóri TripAdvisor segir kaupin á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu marka tímamót í starfsemi alþjóðlegu bókunarsíðunnar.

Ritstjórn
Hjalti Baldursson er forstjóri Bókunar sem selt hefur verið til alþjóðlega bókunarfélagsins TripAdvisor.
Aðsend mynd

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Bókun ehf., sem leitt er af Hjalta Baldurssyni og Ólafi Gauti Guðmundssyni, er komið í eigu bandarísku bókunarsíðunnar TripAdvisor. TripAdvisor® tilkynnti í dag um kaup á öllu hlutafé Bókunar ehf. en kaupverðið verður ekki gefið upp að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Höfuðstöðvar Bókunar verða áfram á Íslandi og stefnt er að umtalsverðri aukningu á starfsemi félagsins sem TripAdvisor hyggst halda áfram að fjárfesta í. Starfsmenn Bókunar í dag eru um 20 talsins. Stjórnendur Bókunar í dag, Hjalti Baldursson forstjóri og Ólafur Gauti Guðmundsson tæknistjóri, sem munu halda áfram að leiða félagið eftir kaupin.

Notaður í sölu- og birgðakerfi í ferðaþjónustu

Hugbúnaðurinn Bókun, sem er mest notaða sölu- og birgðakerfið í íslenskri ferðaþjónustu, hefur vaxið umtalsvert erlendis á síðustu misserum og er nú nýtt af viðskiptavinum víðsvegar um heiminn.

Með kaupunum mun TripAdvisor útvíkka vöruframboð sitt, með því að þjónusta ferðaþjónustuaðila með rekstrar- og stjórnunarhugbúnaði, til viðbótar við að starfrækja stærsta dreifingarnet í heiminum fyrir ferðir og afþreyingu.

Tímamót í starfsemi Tripadvisor

Dermot Halpin framkvæmdastjóri TripAdvisor segir kaupin á Bókun marka tímamót í starfsemi fyrirtækisins.„Við erum að breikka okkar kjarnastarfsemi, úr því að vera stærsti dreifingaraðilinn í okkar geira ferðaiðnaðarins, yfir í að bjóða upp á tæknilausnir sem leysa dagleg vandamál okkar birgja,“ segir Halpin.

„Vara Bókunar er einstök, sem mun einfalda okkur að vaxa í hugbúnaðargeiranum, sem við munum fjárfesta í af afli til langs tíma litið.” Bókun er íslenskur hugbúnaðar, sérhæfður fyrir daglegan rekstur ferða- og afþreyingarfyrirtækja, bæði birgja og söluaðila. Hugbúnaðurinn er allt í senn, bókunarvél, dreifi- og verðstýringarkerfi o.fl.

Bókun ehf. var stofnuð árið 2012 og hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum og um leið stutt við vöxt ferðaþjónustunnar á Íslandi.
„Það er okkur heiður og ánægjuleg áskorun að ganga til liðs við stærsta fyrirtækið á heimsvísu í kynningu og sölu á ferðum og afþreyingu,” segir Hjalti Baldursson, forstjóri Bókunar. „TripAdvisor gefur okkur færi á að þjóna viðskiptavinum í öllum heimshornum, sem við erum einstaklega spennt yfir. Þess utan, munum við efla þróun á vörunni til muna.”