„Það eru alger forréttindi að vinna við áhugamálið en það þýðir að oft liggja miklar tilfinningar að baki þeim verkefnum sem maður tekur að sér,“ segir Ellen Loftsdóttir nýráðin dagskrárstjóri HönnunarMars 2020.

„Ég datt einhvern veginn inn í að verða listrænn stjórnandi hjá Reykjavík Fashion Festival á sínum tíma þegar ég kom heim frá námi og starfi erlendis. Væntanlega mun reynslan af því að stýra þeirri hátíð nýtast mér best í þessu starfi, sem er tímabundið hlutastarf. Ég er í almennu utanumhaldi á dagskránni, viðburðunum og skipulagningu.“

Hátíðin verður haldin miðvikudaginn 26. til og með sunnudeginum 29. mars. „Hátíðin er sameiningarvettvangur nýsköpunar og hönnunar þar sem tilgangurinn er að styrkja innviði hönnunar á Íslandi. Valnefnd velur hönnuði og atburði á hátíðina og má segja að þetta sé eins og Airwaves fyrir hönnun, það eru viðburðir út um alla borg og víðar, og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Ellen.

„Það eru um 100 viðburðir á dagskrá HönnunarMars á hverju ári og leggjum við okkur fram um að gera þá sem aðgengilegasta fyrir bæði hönnunarsamfélagið sjálft sem og allan almenning sem hefur áhuga á því sem er að gerast þar. Hátíðin spannar breytt svið hönnunar en segjum ef þú hefur til dæmis sérstakan áhuga á arkitektúr þá er hægt að þræða sig eftir því sem snertir hann í gegnum dagskrána. Hátíðin varpar ljósi á það sem er að gerast í heimi hönnunar þessa stundina, býr til samtöl, samstörf og veitir innblástur, en hún opnar með alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks í Hörpu þar sem helstu hönnuðir, arkitektar og hugsuðir ræða hlutverk hönnunar.“

Ellen hefur unnið fyrir ýmis þekkt nöfn, má þar nefna tímaritin Elle og Glamour auk eigin aljóðlegs tískutímarits, Favorite Magazine.

„Þetta byrjaði eiginlega þegar ég kom mér í að vinna í snjó- og hjólabrettavöruversluninni Týndi hlekkurinn fimmtán ára gömul. Ég byrjaði snemma að pæla í fötum samhliða þessari iðkun sem ákveðin tíska og lífsstíll fylgir. Þá voru eiginlega bara til föt fyrir karlmenn í þessu sem við stelpurnar vorum að troða okkur í en síðan fékk ég að vera með þegar eigendur verslunarinnar stofnuðu fatamerkið Nikita utan um hönnun á fatnaði fyrir konur á snjó- og hjólabrettum,“ segir Ellen sem síðan hélt utan í nám.

„Ég vildi ekki læra fatahönnunina sjálfa heldur meira svo ég gæti starfað í umgjörðinni. Í starfsnámi út frá því komst ég svo í kynni við stílista sem ég vann lengi með, meðal annars fyrir Coldplay, en þeim þótti mjög fyndið að þótt þeir hefðu oft spilað á Íslandi væri ég enginn sérstakur aðdáandi og aldrei farið á tónleika með þeim.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .