*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Fólk 17. júní 2018 19:01

Trommari með hjóladellu

Ari Steinarsson, nýr markaðsstjóri Reykjavík Excursions, segir að markaðssetning á stafrænum miðlum sé að verða fyrirferðarmeiri.

Ritstjórn
Ari Skúlason, nýr markaðstjóri Kynnisferða.

Ari Steinarsson, nýr markaðsstjóri Reykjavík Excursions, segir að markaðssetning á stafrænum miðlum sé að verða fyrirferðarmeiri. „Reykjavík Excursions – Kynnisferðir er 50 ára og hefur í rauninni gengið í gegnum allar þær breytingar sem hafa átt sér í ferðaþjónustunni síðustu ár,“ segir Ari en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu sem sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu frá árinu 2017. „Við hjá Kynnisferðum erum með alls kyns vörur, til að mynda „Hopon, hop-off“ vagninn, dagsferðir og við rekum auk þess flugrútuna frá Keflavíkurflugvelli.“

Ari er enginn nýgræðingur í markaðssetningu en hann hefur starfað meira og minna við hana alla sína starfsævi. Áður en hann fór til Kynnisferða var hann eigandi og framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu Netráðgjöf, en það er ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu. Hann hefur einnig starfað sem sérfræðingur hjá TM Software og rekið hvalaskoðunarfyrirtæki. „Það sem er náttúrulega að gerast í markaðssetningu er að stafrænir miðlar eru að verða fyrirferðarmeiri,“ segir Ari. Ari er nú í námi við skóla sem nefnist Digital Marketing Institute í stafrænni markaðssetningu. Hann hefur auk þess sótt fjöldan allan af námskeiðum tengdum henni.

Áhugamálið tónlist og útivist

Spurður um áhugamál sín segir Ari að tónlist og útivist séu þau helstu. Hann sé kolfallinn reiðhjólaáhugamaður. „Ég hjóla mikið eftir vinnu og tók þá bólu alveg alla leið,“ segir hann. „Þegar ég varð fertugur gaf konan mér reiðhjólaferð til Mallorca og eftir það var ekki aftur snúið. Þetta var svona hennar leið til að gefa í skyn að ég þyrfti að hreyfa mig meira,“ bætir hann við.

Ari er þar að auki trommari og hefur unnið að tónlist lengi en hann hefur trommað með alls kyns hljómsveitum. Meðal annars túraði hann með hljómsveitinni Sólstöfum árið 2015. Í síðasta mánuði gaf hann út plötu með hljómsveitinni Norður og nefndist sú plata Þögn. „Ég reyni að halda jafnvægi milli vinnu og tónlistarinnar,“ segir hann.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.