Seðlabankastjóri segir greiðslubyrðarregluna komna til að vera óháð aðstæðum á fasteignamarkaði hverju sinni. Hann sér ekki fyrir sér að slakað yrði á þeim lágmarksviðmiðum við útreikning hennar sem sett voru fyrr í sumar frekar en hlutfallinu sjálfu, jafnvel þótt fasteignaverð færi að lækka.

Við slíkar aðstæður segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar bankans þó að vel kæmi til greina að snúa nýlegri lækkun hámarksveðhlutfalls fyrstu kaupenda úr 90% í 85% til baka.

Ekki hugsuð sem virk stjórntæki

Þjóðhagsvarúðartæki fjármálastöðugleikanefndar séu hins vegar ekki hugsuð sem virk stjórntæki á sama hátt og stýrivextir, enda ólík þeim í eðli sínu sem einskonar lántökugólf auk þess að markmiðið með beitingu þeirra sé annað.

Upp að því marki sem þó megi líta þannig á þau segir Ásgeir það fyrst og fremst eiga við um veðhlutfallið. „Það er alveg hægt að slaka á því. Greiðslubyrðarhlutfallið og lágmarksviðmiðin við útreikning þess held ég hins vegar að séu bara varanleg. Þetta er bara almennt viðmið; þú átt ekki að kaupa eign nema þú getir borgað af henni.“

Samkvæmt reglunni, sem komið var á í fyrra og viðmið hennar svo uppfærð nú í sumar, má greiðslubyrði fasteignaláns sem hlutfall heildarlauna ekki fara yfir 35% almennt, en 40% sé um fyrstu kaup að ræða.

Við útreikning hlutfallsins skal enn fremur miða við lágmark 3% vexti og 25 ára lánstíma fyrir verðtryggð lán, sem í dag fást með allt niður í 1,2% breytilegum og 1,9% föstum vöxtum og til allt að 40 ára. Fyrir óverðtryggð lán skal miða við að lágmarki 5,5% vexti, en ekki er sett sérstakt hámark á lánstímaviðmið.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.