Nýjasta verðbólguspá Seðlabankans er ótrúverðug, að sögn greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorni deildarinnar í dag segir m.a. að Seðlabankinn spái því nú að verðbólga verði komin í 2,5% á þriðja ársfjórðungi ársins 2014, þ.e. eftir tæp tvö ár. Greiningardeildin leggur lítinn trúnað á spánna og telur verðbólgu verða talsvert meiri, um 4%.

Af þessum sökum búast Íslandsbanka-menn við því að stýrivextir verði hækkaðir á næsta og þarnæsta ári. Samkvæmt því er búist við að stýrivextir fari úr 6% nú í 6,4% að meðaltali á næsta ári og 6,7% árið 2014. Þetta er þvert á væntingar Seðlabankans.

Í Morgunkorninu segir:

„Markaðsaðilar virðast vera í heild einnig vantrúaðir á þessa spá bankans en samkvæmt niðurstöðum spurningakönnunar sem Seðlabankinn birti í gær vænta markaðsaðilar að meðaltali þess að verðbólgan verði 4,6% eftir tvö ár. Þá má geta þess að verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði sem metið er út frá vaxtamun verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa nú um 4,1% til fimm ára.“