Unnið er að því á meðal kristinna trúfélaga hérlendis að afla upplýsinga um hvaða sláturhús á landinu slátra með svokallaðri Halal aðferð múslima. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ætlunin að beina því til allra kristinna manna á Íslandi að þeim sé óheimilt að neyta fórnarkjöts annarra trúarbragða. Því verði allar framleiðsluvörur þeirra fyrirtækja sem stunda Halal slátrun sniðgengnar, þar á meðal SS.

Komið hefur fram í fréttum RÚV að sláturaðferð Múslíma er notuð að hluta eða öllu leyti í haust, meðal annars hjá SS á Selfossi, sláturhúsi KVH á Hvammstanga og KS á Sauðárkróki. Aðferð þessi er líka kölluð Thabiha.

Halal-slátrun allra dýra (einnig fiska) fellst í því að stinga á með einni stungu á slagæðina á hálsinum og tæma dýrið á öllu blóði, enda er blóð með öllu bannað til matar. Meðan dýrinu er að blæða út má ekki meðhöndla það á neinn hátt. Slátrun er álitin trúarleg athöfn og áður en stungið er á slagæðinni er þessi setning höfð yfir: „Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama."

„Þeir hafa upplýst að múslimi sé viðstaddur slátrunina," segir heimildarmaður.

„Samkvæmt kenningum múslima er þarna um fórnarathöfn að ræða og fer eftirlitsmaður með bænir samkvæmt Kóraninum. Þeir eru því að blessa kjötið fyrir sína trúbærður og systur samkvæmt sinni trú. Samkvæmt Biblíunni er okkur ekki heimilt að neyta þessara afurða og því munum við beina því til allra kristinna manna á Íslandi að sniðganga vörur frá þeim fyrirtækjum sem stunda Halal slátrun, - og þá allar þeirra vörur," segir heimildarmaður Viðskiptablaðsins sem ekki vill láta nafn síns getið.

„Við erum að kanna hvaða fyrirtæki eru að taka þátt í þessu og við munum því beina því til allra kristinni manna á Íslandi að beina viðskiptum sínum til annarra fyrirtækja og þess vegna beint til bænda sem stunda heimaslátrun án trúarfórna að hætti íslam. Við munum aldrei taka þátt í þeim undirlægjuhætti sem þessi fyrirtæki eru að taka upp gagnvart múslimum."

Halal slátrunaraðferðin byggir á því í flestum löndum múslimaheimsins að dýrið sé uppistandandandi og lifandi þegar það er skorið á háls. Er aðferðinni lýst í Kóraninum. Hefur þetta verið harðlega gagnrýnt af dýraverndunarsinnum víða um heim þar sem hægt sé að slátra á mun skjótvirkari hátt.

Hérlendis mun vera beitt raflosti við Halal til að lama kindurnar áður en þær eru skornar á háls. Þá eru þær ekki skotnar með pinna í gegnum höfuðkúpuna eða byssukúlu eins og áður var tíðkað eða lamaðar með rafstuði og stungnar í hjartað.

Heimildarmaður Viðskiptablaðsins sagði að það væru ekki endilega slátrunaraðferðin sem slík sem þarna skipti höfuðmáli, heldur að þarna væri verið að setja upp fórnarathöfn að hætti múslima með múslímskum bænalestri. Slíkt gætu kristnir menn einfaldlega aldrei liðið.