Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, hefur boðað til þingkosninga þann 20. september næstkomandi, tveimur árum áður en núverandi fjögurra ára kjörtímabili lýkur. Hann er sagður vilja nýta sterka stöðu sína í skoðanakönnunum til að auka þingstyrk flokksins.

Trudeau bað landshöfðingja – fulltrúa Elísabetar englandsdrottningar, sem er þjóðhöfðingi landsins – um að slíta þingi.

Í ræðu vegna málsins lýsti forsætisráðherrann kosningunum sem einskonar atkvæðagreiðslu um viðbrögð núverandi ríkisstjórnar við heimsfaraldri kórónuveirunnar, og sagði að nú væri tækifæri til að „ljúka baráttunni“ með umboði til stórtækra breytinga á sviði loftslags-, húsnæðis-, félags- og heilbrigðismála.

„Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í dag munu móta framtíð barna og barnabarna ykkar,“ var haft eftir honum. „Við vorum til staðar fyrir ykkur, en nú er komið að ykkur að velja.“

Í frétt Financial Times um málið er Frjálslyndi flokkur Trudeau‘s sagður vilja nýta sér góðan árangur við bólusetningar við kórónuveirunni til að bæta þingstyrk sinn, en núverandi ríkisstjórn hans er minnihlutastjórn.

Samkvæmt síðustu skoðanakönnunum myndi flokkurinn bæta við sig þingsætum á kostnað Íhaldsflokksins, og gæti hugsanlega náð þeim 170 sætum sem þarf fyrir hreinan meirihluta, en flokkurinn telur 155 þingmenn í dag.