Útlit er fyrir að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, muni halda embættinu eftir þingkosningar sem fram fóru í gær, en flokkur hans, Frjálslyndi flokkurinn, mun ekki ná hreinum meirihluta.

Trudeau boðaði til kosninganna fyrir rúmlega mánuði síðan til að auka þingstyrk flokksins, sem þá hafði verið í minnihlutastjórn í tvö ár. Nú er orðið ljóst að svo verður áfram.

Frjálslyndi flokkurinn hefur unnið eða er með flest talin atkvæði í 157 þingsætum, sem vill svo til að er akkúrat fjöldi þingsæta sem hann hafði fyrir kosningarnar. Heildarfjöldi sæta á þinginu er 338 og hefði flokkurinn því þurft 170 til að ná hreinum meirihluta.

Trudeau og flokkurinn höfðu hugsað sér að nýta sér meðbyr sem þeir töldu sig hafa vegna góðs gengis bólusetningar gegn kórónuveirunni. Eftir því sem leið á kosningabaráttuna dvínaði hinsvegar stuðningur við stjórnarflokkinn og leiðtoga hans, og því fór sem fór. Í frétt Financial Times um málið er hann sagður mega þakka góðu gengi í baráttufylkinu Ontario að ekki fór verr.

Líklegt er talið að Frjálslyndi flokkurinn muni áfram stjórna í samvinnu við hina Nýju demókrata, sem eru vinstra megin við flokk Trudeaus og hafa varið minnihlutastjórn hans falli síðustu tvö ár og stutt hann í stórum málum.