Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, veitti kvikmyndafyrirtækinu Truenorth Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það voru Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri og Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth, sem veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Þá fékk Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar, sérstaka heiðursviðurkenningu. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Á síðasta ári hlaut Jóhann Sigurðsson bókaútgefandi heiðursviðurkenninguna en áður hafa m.a. Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Björk hlotið hana.