Ekkert getur neytt danska seðlabankans til að láta gengi dönsku krónunnar fljóta. Þetta segir Carsten Stendevad, framkvæmdastjóri ATP sem er stærsti lífeyrissjóður Danmörku. Eignir sjóðsins nema um þriðjungi af landsframleiðslu Danmerkur.

Ummælin lét Stendevad falla í skugga yfirvofandi hættu á að Bretland gangi úr Evrópusambandinu, sem hefur ollið miklu fjármagnsflæði til svæða sem fjárfestar telja vera örugg. Danmörk er eitt þeirra, en danski seðlabankinn heldur gengi dönsku krónunnar föstu gagnvart evru. Í maí þurfti seðlabankinn að grípa til aðgerða til að veikja krónuna í fyrsta skipti síðan í febrúar á síðasta ári, þegar spákaupmenn reyndu að fella fastgengið.

Bloomberg hefur eftir Stendevad að ATP hafi ekki breytt áhættustýringu sinni vegna atkvæðagreiðslunnar um útgöngu Bretlands úr ESB. Það endurspegli trú ATP á að danski seðlabankinn geti viðhaldið fastgenginu við hvaða aðstæður sem er. ATP hafði um 72% eigna sinna í dönskum krónum um síðustu áramót og hefur það ekki breyst að ráði síðustu mánuði að sögn Stendevad.

Sveiflur framundan

Danske Bank ráðleggur viðskiptavinum sínum nú að verja sig gegn styrkingu svissneska frankans og veikingu pundsins þegar fjárfestar flýja með fjármuni sína í örugg skjól.

Nordea Bank bendir hins vegar á að jafnvel þó Bretar kjósi að vera áfram í ESB muni það valda sveiflum á gjaldmiðlamörkuðum, þegar gengi pundsins og áhættusamari gjaldmiðla jafnar sig. Gengi skandinavísku gjaldmiðlanna gæti jafnvel veikst við slikar aðstæður.