Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur afboðað fyrirhugaða opinbera heimsókn til Danmerkur – þar sem hann hugðist funda með forsætisráðherranum, Mette Frederiksen – eftir að hún sagði hugmynd hans um að kaupa Grænland fáránlega.

Í tísti sínu um málið í gærkvöldi sagðist Trump ætla að fresta heimsókninni vegna áhugaleysis Frederiksen um að ræða kaupin á Grænlandi. Hún hafi sparað báðum löndum mikla fjármuni og fyrirhöfn með beinskeytni sinni. Hann sagði þó Danmörku vera „mjög sérstakt land með ótrúlegu fólki“.

Á fimmtudag var sagt frá því að Trump hafi beðið aðstoðarmenn sína um að kanna möguleikann á kaupunum. Hugmyndin fékk ekki góðar móttökur, en Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, svaraði því til að landið væri „opið fyrir viðskiptum, en EKKI til sölu“. „Grænland er ekki til sölu, og Grænland er ekki danskt. Grænland á sig sjálft,“ lét svo Frederiksen hafa eftir sér um málið.

Netheimar létu heldur ekki á sér standa og útbjuggu mynd af smábæ á Grænlandi þar sem búið var að koma fyrir risavöxnum gylltum turni með nafn Trump á toppnum. Trump gerði sér lítið fyrir og endurbirti myndina með yfirskriftinni „ég lofa að gera þetta ekki við Grænland!“.