Teymi Donald Trump hefur lagt blátt bann við ráðningu starfsmanna þrýstihópa. Einnig setur Trump það skilyrði að einstaklingar sem hafa áður starfað fyrir þrýstihópa þurfa að bíða í fimm ár þangað til að þeir geti tekið þátt í ríkisstjórn eða vinni fyrir Trump stjórnina. Frá þessu er greint í grein Washington Post .

„Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að fólk noti stöðu sína í ríkisstjórn til þess að maka krókinn,“ er haft eftir Sean Spicer talsmanni teymis Donalds Trump, sem sér um embættistökuna. Allir þeir sem vilja starfa fyrir ríkisstjórnina verða að skrifa undir bann við það að starfa fyrir þrýstihópa.

Þessi stefnubreyting skaut upp kollinum nokkrum dögum eftir að Trump var gagnrýndur fyrir að ráða meðlimi þrýstihópa í teymi sitt. Hann hafði talað fyrir því að halda sérhagsmunum fjarri ríkisstjórn sinni í kosningabaráttunni. Hins vegar er hægt að fara fram hjá þessum reglum með því að segja sig einfaldlega úr þrýstihópnum sem að einstaklingurinn starfar fyrir.