Donald Trump forseti Bandaríkjanna skrifaði í gær undir reglugerð sem bannar viðskipti í landinu með nýja rafmynnt á vegum stjórnvalda í Venesúela. Rafmyntin, sem kölluð er Petro, á að vera svar sósíalísku einræðisstjórnar Nicolas Maduro í landinu við því sem þeir kalla efnahagslegt stríð af hálfu Bandaríkjanna og annarra vesturlanda.

Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar varað við notkun rafmyntarinnar og sagt hana svindl og blekkingu sem ætti að nýta til að grafa enn frekar undan lýðræðinu í Venesúela. „Pedroið er örvæntingarfull tilraun spilltrar stjórnar til að svindla á alþjóðlegum fjárfestum,“ segir háttsettur embættismaður í bandaríska stjórnkerfinu að því er Reuters fréttastofan greinir frá.

„Fjárfesting í Pedroinu ætti að líta á sem hreinan stuðning við einræðið og tilraunir þess til að grafa undan lýðræðislegum leikreglum í Venesúela.“ Með stofnun rafmyntarinnar vonast Maduro til þess að komast hjá viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna, en sósíalískt efnahagskerfi landsins stendur frammi fyrir hruni og gríðarlegri óðaverðbólgu.

Fréttir af banninu við notkun rafmyntarinnar kemur í kjölfar þess að stjórnvöld í Bandaríkjunum eru sögð skoða mögulegar refsiaðgerðir gegn ríkisolíufélaginu í Venesúela. Maduro hefur sagt að rafmyntin hafi tryggt um 375 milljón Bandaríkjadali, eða sem samsvarar 37.400 milljónum íslenskra króna í forsölu. Jafnframt tilkynntu stjórnvöld um áætlanir um aðra rafmynnt sem eigi að vera varin með gulli og öðrum góðmálmum.