*

laugardagur, 7. desember 2019
Erlent 15. maí 2019 07:45

Trump banni fjarskiptabúnað frá Huawei

Donald Trump hyggst gefa út tilskipun sem bannar fjarskiptabúnað Huawei, eftir að upp úr tollaviðræðum slitnaði.

Ritstjórn
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína.
epa

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst banna bandarískum fyrirtækjum að nota fjarskiptabúnað frá kínverska framleiðandanum Huawei. Til stendur að forsetinn gefi út tilskipun þess efnis á næstu dögum, samkvæmt frétt Financial Times.

Málið hefur legið í loftinu í nokkurn tíma, en bandaríska leyniþjónustan CIA hefur sakað Huawei um að setja stafrænar „bakdyr“ í síma og önnur fjarskiptatæki, sem kínversk yfirvöld noti til að njósna um notendur þeirra. Þessu hefur fyrirtækið hinsvegar neitað staðfastlega, og forsvarsmenn þess segja að félagið myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum verða við beiðni kínverskra yfirvalda um upplýsingar um notendur þess.

Trump er sagður hafa verið hikandi um að gefa út tilskipunina, meðal annars til að stefna ekki hugsanlegum viðskiptasamningi við Kína í hættu. Eins og fram hefur komið síðustu daga varð hinsvegar ekkert úr þeim samningi, og bæði lönd hafa hækkað tolla á innflutning frá hvort öðru.

Samkvæmt heimildamanni Reuters, sem flutti fyrst fréttir af málinu, verður tilskipuninni ekki formlega beint gegn Huawei sérstaklega, heldur verður komið á fót öryggisferlum sem fela í sér heimild viðskiptaráðherra til að grípa inn í öll viðskipti við fyrirtæki sem yfirvöld líta svo á að ógni öryggi landsins. Huawei verður svo þeirra á meðal.

Stikkorð: Huawei Trump