*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 15. apríl 2019 15:11

Trump: Boeing 737 Max breyti um nafn

Forseti Bandaríkjanna segir að flugvélaframleiðandinn ætti að koma með nýtt vörumerki fyrir kyrrsettar flugvélar.

Ritstjórn
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skoðanir á markaðssetningu Boeing flugvélarframleiðandans.
epa

Eftir tilkynningu American Airlines í gær um að félagið muni hætta við 115 flugferðir á dag fram undir miðjan ágúst vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max vélanna tísti Donald Trump Bandaríkjaforseti að hann myndi breyta nafni vélanna.

„Hvað veit ég um vörumerki?,“ spyr Trump í tísti sem hann sendi frá sér í dag. „Kannski ekkert (en ég varð forseti!), en ef ég væri Boeing, myndi ég LAGA Boeing 737 Max vélarnar, bæta við einhverjum frábærum þáttum, og ENDURMARKAÐSSETJA vélina undir nýju nafni. Engin vara hefur þurft að þola jafnmikið og þessi. En aftur, hvað í fjandanum veit ég?“

 

 

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í fréttum hafa flugvélarnar verið kyrrsettar síðan um miðjan mars eftir annað flugslysið í flugtaki véla af þessari gerð á innan við fimm mánuðum.

Hyggst Boeing flugvélaframleiðandinn klára að laga hugbúnað í vélunum sem talinn er vera ástæða flugslysanna fyrir lok aprílmánaðar. Síðan þarf uppfærslan að fá samþykki bandarískra og erlendra flugmálayfirvalda.

American Airlines er annað stóra bandaríska flugfélagið sem tekið hefur ákvörðun um að hætta við flugferðir út sumarið, en áður hafði Southwest Airlines, sem er stærsta flugfélagið með Boeing vélar, tilkynnt um að það muni fresta ferðum með Boeing 737 Max vélar til 5. ágúst.

Nema flugferðirnar sem hætt er við hjá American Airlines 1,5% allra flugferða á dag yfir háannatíma sumarsins, en félagið er með 24 Max vélar. Þó segir félagið að ekki sé um allar ferðir sem ætlað var að nota Max vélar í heldur hyggist það leigja aðrar vélar undir sumar ferðanna.

Segir félagið jafnframt að viðskiptavinir sem ekki vilja fá aðra tímasetningu en þeir höfðu bókað myndu fá endurgreitt að því er Guardian greinir frá.