Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, mun byrja með samfélagsmiðilinn TRUTH Social þann 21. febrúar, ef marka má App Store. Þetta kemur fram í grein Reuters .

Sjá einnig: Trump stofnar samfélagsmiðil

Trump Media & Technology Group (TMTG), metið á 4,3 milljarða dollara, stendur á bak við samfélagsmiðilinn sem á að veita Twitter samkeppni. Á Truth Social verður hægt að fylgja öðrum og sjá hvaða umfjöllunarefni eru vinsæl hverju sinni. Opnun Truth Social verður byrjunin á þróun TMTG, að því er fram kemur í grein Reuters. Félagið ætli sér einnig að byrja með myndbands- og hlaðvarpsrás.

Facebook og Twitter bönnuðu Trump frá sínum miðlum fyrir rúmlega ári síðan eftir að fyrrverandi forsetinn þótti hafa hvatt stuðningsmenn sína til að taka þátt í árásinni á þinghúsið þann 6. janúar en forsetinn hafði haldið því fram að niðurstöður forsetakosninganna hefðu verið einhvers konar kosningasvindl. Hann hefur verið talsvert minna áberandi í samfélagsumræðunni í kjölfar samfélagsmiðlabannsins, en nýr miðill á hans vegum gæti breytt því.