Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi frá sér tíst í gær þar sem hann velti fyrir sér „hvort RAUNVERULEGUR samningur við Kína sé möguleiki“, þremur dögum eftir fund hans við Xi Jinping, þar sem leiðtogarnir sammæltust um vopnahlé í tollastríði stórveldanna tveggja. Financial Times greinir frá.

Trump veltir í tístinu fyrir sér hvort samningar geti náðst fyrir næsta frest viðræðanna, sem er í byrjun mars næstkomandi. „Ef svo er, munum við klára málið . . . ef ekki, munið bara, ég er tollamaður,“ sagði Trump ennfremur.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar óróleika stjórnvalda í Washington vegna þess hve óformleg og á köflum óskýr loforð kínverska forsetans voru á fundinum, sem haldinn var eftir G20 fund í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu.